fbpx
Laugardagur, október 5, 2024
HeimFréttirPólitíkVæri Hafnarfjörður enn betri á Snæfellsnesi?

Væri Hafnarfjörður enn betri á Snæfellsnesi?

Gísli Rafn Ólafsson frambjóðandi Pírata skrifar

Þrátt fyrir að Hafnarfjörður sé hýr þá væri hann enn hýrari ef hann væri við Grundarfjörð. Þar má nú þegar finna Setberg, gott hafnarstæði, hið tignarlega Kirkjufell og síðast en ekki síst: Miklu meiri áhrif á Alþingi.

Í Hafnarfirði voru rúmlega 21 þúsund manns á kjörskrá í fyrra. Það er nokkurn veginn sami fjöldi og í öllu Norð­vest­ur­kjör­dæmi, þar sem Grund­ar­fjörð er að finna. Grundfirðingar og aðrir í Norð­vesturkjördæmi eru með átta þingmenn á sínum snærum. Þýðir það ekki örugglega að Hafnfirðingar fái líka 8 þingmenn?

Svo sannarlega ekki. Hafnfirðingar deila sínum 13 þingmönnum með 52 þúsund öðrum íbúum Kragans. Hver þingmaður í Norðvestur er nefnilega með í kringum 2600 kjósendur á bak við sig en hver fulltrúi okkar í Suðvestur þarf 5600. Fyrir vikið erum við í Krag­anum með um helmingi minni áhrif á Alþingi en þau í Norðvestur.

Skýringin á þessu er mjög einföld: Alþingismönnum finnast atkvæði fólks í Norðvesturkjördæmi mikilvægari en atkvæði Hafnfirðinga. Þess vegna fær Norðvesturkjördæmi hlutfallslega fleiri þingmenn en við hérna á Suðvestur­horninu.
Það er sorglegt að hugsa til þess hvernig kosninga­kerfi við höfum komið okkur upp. Það er í engu samræmi við fjölda og staðsetningu kjós­enda í landinu. Fyrir vikið skipta sumir kjósendur meira máli en aðrir. Skipta íbúar í Grænukinn minna máli en íbúar Grundar­fjarðar?

Auðvitað ekki. Þess vegna hafa Píratar ítrekað reynt að jafna leikinn, síðast núna í vor, en án árangurs. Það eru nefnilega ákveðnir flokkar sem græða á þessu óréttlæti og þá langar ekki að breyta því. Þannig finnst sama flokki og fer með stjórnina í Hafnarfirði að atkvæði Hafnfirðinga eigi að skipta minna máli í alþingiskosningum. Það er hvorki eðlilegt, sanngjarnt né meitlað í stein. Við getum auðveldlega breytt þessu. En þá þurfum við líka að kjósa flokka sem vilja breytingar, flokka sem vilja að Hafnfirðingar njóti jafnræðis. Flokka eins og Pírata.

Gísli Rafn Ólafsson
frambjóðandi Pírata.

Greinin birtist í 3. tbl. Fjarðarfrétta, 19. árg. – 31. ágúst 2021

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2