Laugardagur, janúar 17, 2026
HeimUmræðanHafnarfjarðarkortið - Fyrsta gjafakort sveitarfélags á Íslandi

Hafnarfjarðarkortið – Fyrsta gjafakort sveitarfélags á Íslandi

Valdimar Víðisson skrifar

Að frumkvæði Markaðsstofu Hafnarfjarðar og í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ verður Hafnarfjarðarkortið tekið í notkun 20. desember. Um er að ræða nýtt gjafa- og inneignarkort sem gildir í fjölda verslana, veitingastaða og þjónustufyrirtækja í Hafnarfirði. Markmiðið er skýrt, að halda verðmætunum heima og styðja við öflugt atvinnulíf í bænum.

Það er því vel við hæfi að jólagjöf bæjarins til starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar í ár er einmitt Hafnarfjarðarkortið. Starfsfólkið fær þannig gjöf sem nýtist bæði í frítímanum og styður um leið beint við bæinn sem það vinnur fyrir.

Fyrsta sveitarfélagið með eigið gjafakort

Hafnarfjörður er fyrsta sveitarfélagið á landinu til að gefa út eigið gjafa- og inneignarkort fyrir fyrirtæki í heimabyggð. Með Hafnarfjarðarkortinu erum við að skapa sameiginlegan vettvang þar sem margir aðilar sameinast um eina lausn sem nýtist íbúum, gestum og fyrirtækjum.

Kortið virkar eins og inneignarkort, sá sem gefur velur upphæðina, en viðtakandinn velur sjálfur hvar í Hafnarfirði hann nýtir hana. Hægt er að nota kortið til að kaupa mat, þjónustu, gjafavöru, upplifanir og margt fleira hjá þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem taka þátt. Þannig verður gjöfin bæði persónuleg og gagnleg en um leið með sterka samfélagslega skírskotun.

Stafræn gjöf sem styrkir heimabyggð

Hafnarfjarðarkortið er stafrænt og hægt að setja það beint í síma, í Apple Wallet eða Android-veski, þannig að gjöfin er alltaf við höndina. Fyrir þá sem vilja hafa eitthvað til að setja í jólapakkann verður jafnframt í boði að fá kortið í fallegri gjafaöskju sem hægt er að kaupa á netinu og í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar. Einnig er einfalt að kaupa kortið rafrænt og senda það með sms eða tölvupósti til viðtakanda.

Mikilvægt er líka að minna á að eigendur Hafnarfjarðarkortsins greiða ekki skatt af gjöfinni, sem gerir það sérstaklega áhugaverðan kost fyrir fyrirtæki sem vilja gleðja starfsfólk sitt og fyrir einstaklinga sem vilja velja gjöf sem skilar sér aftur inn í samfélagið.

Með Hafnarfjarðarkortinu gefum við ekki bara gjöf, við veljum að styrkja bæinn okkar, fyrirtækin okkar og fólkið í kringum okkur. Það er falleg leið til að segja „Við erum Hafnarfjörður.“

Valdimar Víðisson,
bæjarstjóri Hafnarfjarðar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2