Hafnarfjarðarbær hefur fengið 8.185.000 króna styrk frá barna- og menntamálaráðuneytinu til að efla íslenskukunnáttu, sjálfstraust og þátttöku starfsfólks hafnfirskra leikskóla í samfélaginu.
„Þetta er liður í að allir geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þetta er líka stökkpallur fyrir starfsfólk leikskóla Hafnarfjarðarbæjar að eflast í starfi. Hafnarfjörður mun koma til móts við starfsfólk sitt svo það geti lært í undirbúningstíma sínum og orðið sterkara í starfi,“ segir Hildur Ýr Jónsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Hafnarfjarðarbæ, sem vinnur að málinu.
„Við viljum styrkja grunn íslensks málumhverfis í leikskólum og horfum til þess að tungumálanám er ekki aðeins á ábyrgð einstaklingsins heldur einnig samfélagsins.“
Íslenskan virkjuð í daglegu starfi
„Markmið verkefnisins er að hanna og innleiða heildstætt íslenskunám á vinnustað, þar sem sérhæft starfstengt efni er samþætt kennslufræðilegri nálgun Mímis og Íslenskuþorpsins,“ segir Hildur.
Segir hún verkefnið fela í sér starfstengt íslenskunámskeið, þjálfun tungumálamentora, fræðslu og stuðning við starfsfólk og stjórnendur, auk þess sem íslenskan er virkjuð í daglegu starfi.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Mími-símenntun og byggir á kennsluaðferðum Íslenskuþorps Háskóla íslands, sem hefur sýnt fram á góðan árangur í starfstengdu tungumálanámi.
Lögð verður sérstök áhersla á starfsþróun þátttakenda. Segir Hildur að með skipulögðu íslenskunámi á vinnustað öðlist starfsmenn bæði tungumálafærni og starfslega hæfni sem styrkir stöðu þeirra innan leikskólans. „Þeir fá tækifæri til að taka næstu skref í námi eða starfi í sviði uppeldis og menntunar, og þannig stuðlar verkefnið að auknu jafnræði, fagmennsku og starfsánægju,“ segir Hildur.
Tekur á brýnni þörf
Hildur segir verkefnið svara brýnni þörf þar sem stór hluti leikskólastarfsfólks talar íslensku sem annað mál. Með nýsköpun og heildstæðri nálgun styrkir það gæði íslenskukennslu, eflir samlíðan og hvetur til símenntunar og starfsþróunar.
Afurð verkefnisins verður fyrirmynd að því hvernig flétta má sérhæfða kennsluaðferð, starfsnám og daglegt starf til að stuðla að inngildingu og framtíðarþróun starfsfólks á fleiri starfssviðum. Verkefnið nýtir dagleg samskipti sem tækifæri til tungumálanáms og styrkir samfélagslega tengingu, þar sem íslenskan verður lifandi og aðgengilegt verkfæri fyrir alla.
„Núna hefst undirbúningstími og skipulagning fyrir kennsluna sjálfa. Mímir hannar námsefnið og við greinum þátttökuviljann. Við vitum þegar að það er þörf á þessu. Kennslan sjálf hefst svo í haust,“ segir Hildur.



