Laugardagur, desember 13, 2025
HeimFréttirSkipulagsmálHvað varð um gönguleiðirnar í Krýsuvík?

Hvað varð um gönguleiðirnar í Krýsuvík?

Davíð Arnar Stefánsson skrifar

Nú er í kynningu vinnslutillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi Hafnarfjarðar sem mun gilda til ársins 2040. Við lauslega skoðun á tillögunni og í samanburði við gildandi skipulag kemur í ljós að lang flestar gönguleiðir í uppdrætti fyrir Krýsuvík hafa verið fjarlægðar úr skipulaginu.

Það á jafnt við um samgönguminjar líkt og Dalaleið, Hettustíg, Drumbadalsveg og Ræningjaleið og síðari tíma útivistarleiðir sem hverfa úr aðalskipulagi bæjarins að óbreyttu.

Ljósmynd: Davíð Arnar Stefánsson

Engar útskýringar er að finna á breytingunni í tillögunni, hvorki í skipulaginu sjálfu né tilheyrandi umhverfisskýrslu. Þar segir hins vegar og réttilega að á Krýsuvíkurjörðinni sé m.a. að finna flest það sem prýðir íslenska náttúru: Strandberg með fjölbreyttu fuglalífi, votlendi, graslendi, mosavaxin hraun og „fjölbreytt eldfjallalandslag með móbergshryggjum og stöpum, sprengigígum, hverasvæðum og tilheyrandi misgengjum og sprungum“, allt þættir sem fela í sér mikla möguleika á sviði útivistar og ferðaþjónustu fyrir bæinn og íbúa hans.

Jafnframt er Krýsuvík innan Reykjanesfólkvangs en tilgangur hans er, auk verndar náttúru og menningarminja, „að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.“ Það birtist í áherslu á að styrkja innviði að náttúru- og útivistarsvæðum í skipulaginu. Þá eru skýr og eðlileg lýðheilsumarkmið í skipulaginu,  enda Hafnarfjörður heilsubær. Margsinnis hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif göngu og útivistar á heilsufar og óþarfi að rekja það frekar.

Varla geta þetta verið mistök en um leið er erfitt að finna eðlilega útskýringu aðra en að þetta tengist fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum og iðnaðaruppbyggingu á svæðinu. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu er allavega ekki að finna neinar aðrar fyrirhugaðar breytingar á landnotkun á svæðinu sem mögulega skarast á við gönguleiðirnar. Hver sem  ástæðan er fyrir því að ætlunin er að fjarlægja gönguleiðirnar á svæðinu verða bæjaryfirvöld að svara og útskýra með einhverjum hætti fyrir bæjarbúum.

Davíð Arnar Stefánsson
formaður og oddviti VG í Hafnarfirði

Ljósmynd: Davíð Arnar Stefánsson

Fyrir áhugasama:

Uppdráttur 2013-2025 (gönguleiðir merktar með rauðri brotalínu): https://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/…/Displa…

Uppdráttur 2025-2040 (gönguleiðir merktar með svartri brotalínu): https://skipulagsgatt.is/…/6be2d1aa-c709-4090-bdd6…

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2