Fjörið er heldur betur að færast í aukana hjá hafnfirsku stjórnmálaflokkunum og þegar er ljóst að leiðtogakjör verður bæði hjá Sjálfstæðisflokki og Viðreisn og athyglisvert er að í báðum tilfellum er það reynt fólk sem berst um sætin.
Þá hefur verið staðfest sem allir vissu að Valdimar Víðisson sækist eftir oddvitasætinu hjá Framsókn og allir vita að það verður samþykkt af flokknum.
Samfylkingin fer rólega af stað og lítið hefur heyrst af öðrum flokkum þó menn hafi verið að hampa skoðanakönnunum án þess að nein nöfn í framboði hafi verið nefnd.
Sveitarstjórnarkosningar snúast í raun miklu meira um fólk en flokka þó auðvitað séu margir trúir „sínum“ flokki hvernig sem vindurinn blæs.
Engin málefni hafa þó verið nefnd og stefnur flokkanna hafa oftast verið birtar seint og illa. Hafa þær einnig oft verið keim líkar og efndirnar oft óljósar. Ljóst er þó að allir fara í kosningaslag með það hugarfar að gera gott fyrir sveitarfélagið en einbeiting bæjarfulltrúa og fulltrúa í ráðum og nefndum hefur þó verið mismunandi. Að sitja sem fulltrúi bæjarbúa kallar á skuldbindingu til að sinna starfinu vel, geta hlustað á bæjarbúa og miðlað upplýsingum skýrt og haft yfirsýn yfir þjónustu, skipulag, fjárhag og stefnumótun svo eitthvað sé nefnt. Þá þurfa bæjarfulltrúar að skilja skipulagsmál og áhrif þeirra á íbúa og geta lesið og metið framkvæmdaáætlanir og áhrif þeirra á umhverfið.
Þá er rétt að ítreka áður birta skoðun um embætti forseta bæjarstjórnar. Undanfarna áratugi hefur þessa æðsta pólitíska embætti í raun verið breytt í fundarstjóra. Embættinu mætti líkja við oddvita í hreppi sem síðar ræður sér sveitarstjóra. Þannig er forseti bæjarstjórnar í raun pólitískur bæjarstjóri á meðan hefðbundinn bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélags. Hvernig á framkvæmdastjóri stórs sveitarfélags að geta sinnt skyldum sínum þegar stór tími fer í pólitískar aðgerðir sem ætti að eftirláta forseta bæjarstjórnar. Þannig ætti það að vera bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar í rauninni að vera fullt starf en hefur lengi verið aukastarf með fullu starfi. Er ekki kominn tími á breytingar?
…
Það vekur athygli í framkvæmdaáætlun að 550 milljónum á að verja á næstu 3 árum til að byggja húsnæði Hafnarsjóðs. Núverandi húsnæði verður rifið til að koma nýjum Tækniskóla fyrir en Hafnarfjarðarbær hefur skuldbundið sig til aðleggja byggingar- og rekstrarfélagi skólans til eigið fé í formi lóðar, byggingarheimilda og fjármuna sem samsvarar 16% byggingarkostnaðar. Í samkomulagi er byggingarkostnaður áætlaður 27 milljarðar króna á verðlagi janúar 2023 og framlag Hafnarfjarðar um 4,4 milljarðar króna. Á núverandi verðlagi er áætlað framlag Hafnarfjarðar um 5 milljarðar króna og hefur það ekki verið endurmetið skv. svari frá Hafnarfjarðarbæ.
Lítið hefur gengið við uppkaup á húsnæði og dæmi eru um að eigendum sem keyptu húsnæði fyrir þremur árum síðan hafi verið boðin lægri upphæð en þeir hafi þá greitt fyrir húsnæðið. Ekki er því enn ljóst hvað uppkaup og niðurrif muni kosta. Í samkomulaginu eru ákvæði til þess að bregðast við kostnaði umfram áætlun en verði umframkostnaður er hægt að óska eftir að eigið fé byggingafélagsins sé aukið sem nemur 20% umframkostnaðar.
Hversu dýrt verður verkefnið allt?
Guðni Gíslason ritstjóri.



