Fréttatilkynning:
Kristinn Andersen, verkfræðingur og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, hefur ákveðið að gefa kost á sér áfram í 3. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri fyrir bæjarstjórnarkosningar nk. vor, en það sæti skipaði Kristinn fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar.
„Ég gef kost á mér til að reynsla mín úr störfum að bæjarmálum og áherslur skili sér áfram á næsta kjörtímabili fyrir bæinn okkar.
Hafnarfjörður hefur vaxið og dafnað svo eftir hefur verið tekið undir forystu okkar sjálfstæðismanna í bæjarstjórn. Stjórnun bæjarfélagsins er traust, mannlífið blómstrar og atvinnulíf er öflugt. Ég legg áherslu á að traustur rekstur bæjarins skili sér áfram í velsæld og hag okkar allra í Hafnarfirði. Fyrir liggja næstu verkefni við uppbyggingu og framkvæmdir í bænum, brýnar úrbætur í samgöngum og að Hafnarfjörður sé áfram í fremstu röð á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjölskyldur og fólk á öllum aldri, unga sem aldna.
Ég bý að menntun og víðtækri starfsreynslu á sviði verkfræði, uppbyggingar tæknifyrirtækja og nýsköpunar. Þá hefur mér auðnast að eiga góð samskipti við bæjarbúa og samstarfsfólk í störfum mínum í bæjarstjórn og hef þar reynslu og gott vegarnesti sem ég veit að mun koma áfram að góðum notum á komandi kjörtímabili. Ég hef átt þess kost að starfa sem forseti bæjarstjórnar undanfarið kjörtímabil og beitt mér þar fyrir árangursríku og farsælu starfi í bæjarmálum. Ég þakka það traust og óska nú eftir endurnýjuðu umboði Hafnfirðinga til að skipa 3. sæti framboðslistans okkar í prófkjörinu 7. febrúar.“
Um Kristin
Kristinn Andersen er verkfræðingur og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en hann skipaði 3. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnarkosninga árið 2022. Hann gefur kost á sér áfram í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí 2026.
Kristinn lauk verkfræðiprófi frá Háskóla Íslands og meistara- og doktorsprófi frá Vanderbilt háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hann stofnaði og starfrækti verkfræðifyrirtæki ásamt öðrum með námi og vann einkum að þróun tækni á sviði róbóta og sjálfvirkni í samstarfi við geimvísindastofnunina NASA.
Hann starfaði hjá Marel yfir 20 ár og stýrði þar rannsókna- og tækniþróunarverkefnum innan fyrirtækisins og í samstarfi við fjölmarga aðila, innanlands og alþjóðlega. Hann er prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands og hefur gegnt starfi sviðsstjóra kennslusviðs HÍ. Kristinn er formaður stjórnar Auðnu tæknitorgs ehf., félags í eigu háskóla og rannsóknastofnana á Íslandi um hagnýtingu hugverka og rannsókna fyrir atvinnulíf og samfélagið.
Hann hefur sinnt kennslu og ráðgjafarstörfum við háskóla og fyrir tæknimenntun hérlendis, komið að stuðningi og uppbyggingu tæknifyrirtækja og sprota í atvinnulífinu og tekið virkan þátt í alþjóðlegu starfi og verkefnum á sviði verkfræði og tækniþróunar.
Kristinn hefur gegnt formennsku Verkfræðingafélags Íslands, hann var formaður Íslandsdeildar alþjóðlega verkfræðingafélagsins IEEE og hefur sinnt fjölda annarra sjálfboðastarfa og verkefna tengdum störfum sínum.
Hann er núna kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þar sem hann er forseti bæjarstjórnar og situr í bæjarráði. Áður hefur hann starfað í ráðum bæjarins, s.s. í fræðsluráði, fjölskylduráði og umhverfis- og framkvæmdaráði, í hafnarstjórn og gegnt formennsku menningar- og ferðamálanefndar auk fleiri verkefna á vettvangi Hafnarfjarðarbæjar.
Kristinn hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins um langt skeið, hann starfaði m.a. sem formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði, sat í stjórn kjördæmisráðs suðvesturkjördæmis og hefur gegnt formennsku menntamála- og allsherjarnefndar Sjálfstæðisflokksins.
Áhugamál Kristins eru samfélagsmál í víðum skilningi, útivist, vísindi, saga, menning og tónlist, en hann lagði stund á klassískt píanónám á yngri árum. Hann lauk fjarskiptaprófi radíóamatöra og hefur sinnt því áhugamáli um langt skeið. Eiginkona Kristins er Þuríður Erla Halldórsdóttir, hárgreiðslumeistari í Hafnarfirði, og eiga þau tvo uppkomna syni.



