Mánudagur, janúar 26, 2026
HeimFréttirPólitíkHafnarfjörður í fararbroddi í málefnum eldra fólks

Hafnarfjörður í fararbroddi í málefnum eldra fólks

Kristín Thoroddsen skrifar

Margt er vel gert í Hafnarfirði þegar kemur að forvörnum og stuðningi við eldra fólk. Janus heilsuefling, samningur við Hress og íþróttastyrkir eru góð dæmi um úrræði sem stuðla að virkni og bættri heilsu. Einnig er afar jákvæð sú nýjung að fjármagn fylgi þeim sem þurfa á þjónustu að halda og að fólk geti valið sér þjónustuveitanda. Þetta er ný nálgun sem margir hafa beðið lengi eftir og hefur burði til að gjörbreyta þjónustu við eldra fólk.

Eldri borgurum fer ört fjölgandi og fram undan er stórt verkefni sem við í Hafnarfirði getum sinnt mun betur. Sérstaklega þarf að efla þjónustu við þá sem hafa misst líkamlega og andlega færni og þurfa mikinn og samfelldan stuðning. Þetta er sá hópur sem mun vaxa hve hraðast á næstu árum og ef ekkert er að gert blasir við umfangsmikið og kostnaðarsamt verkefni. Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði hefur verið óhræddur við að fara nýjar leiðir og ljóst er að taka þarf skýrar og markvissar ákvarðanir sem þjóna hagsmunum þessa íbúahóps best.

Samþætt þjónusta og nýjar leiðir

Nauðsynlegt er að samþætta félagslega heimaþjónustu sem Hafnarfjarðarbær veitir sem og heimahjúkrun frá heilsugæslunni. Gera má þjónustuna skilvirkari og auka skýrleika ábyrgðar. Þannig verður hún aðgengilegri og ekki eins íþyngjandi fyrir skjólstæðinga og aðstandendur þeirra.  Reynslan sýnir að það að hafa einn þjónustuaðila eykur yfirsýn, bætir gæði þjónustunnar og dregur úr kostnaði.

Hafnarfjarðarbær þarf jafnframt að vera opinn fyrir útvistun þjónustunnar til einkaaðila í stað þess að reyna að þjónusta hana alfarið sjálfur. Sveitarfélagið er ekki nógu vel í stakk búið til að reka heimahjúkrun samhliða félagslegri þjónustu, og mikilvægt er að horfast í augu við þá staðreynd. Viðhorf til aldraðra eru að breytast. Eldra fólk er fjölbreyttari hópur en var hér áður fyrr, hópur sem gerir kröfur um gæði og vill hafa valkosti.

Fjárfesting í forvörnum og lífsgæðum

Fjölgun fólks 80 ára og eldra mun tvöfaldast á næstu 15 árum. Ef haldið verður áfram með óbreyttu fyrirkomulagi mun kostnaður aukast umtalsvert. Nauðsynlegt er að horfa á lausnir sem í boði eru og nýta nútímatækni í þjónustu fyrir þá eldri borgara sem hana þurfa. Lausnin felst í öflugum forvörnum, heilsueflingu, endurhæfingu ásamt því að draga úr félagslegri einangrun. Það stuðlar að bæði bættum lífsgæðum sem og hagkvæmari lausnum.

Þjónustukjarnar eða lífsgæðakjarnar fyrir eldra fólk eru lykilatriði í þessari framtíðarsýn. Þar á fólk að geta sótt dagþjónustu, lifað sjálfstæðu lífi í öruggu umhverfi, búandi í nálægð við hjúkrunarheimili þegar þörf krefur. Slík nálgun skiptir miklu máli þegar annar aðilinn þarfnast meiri þjónustu en hinn, án þess að rjúfa tengsl þeirra eins og oft vill verða.

Við þurfum að rjúfa kerfislæga sóun í kerfinu. Ríkið ver háum upphæðum rekstur, hönnun og byggingu hjúkrunarheimila. Til eru fleiri aðilar sem eru betur í stakk búnir til þess. Hlutverk hins opinbera ætti fyrst og fremst að vera að móta stefnu, skilgreina gæðakröfur og tryggja virkt eftirlit, fremur en að framkvæma allt sjálft á hraða snigilsins. Slík nálgun er í takt við stefnu Sjálfstæðisflokksins um einkaframtak og frelsi.

Hafnarfjörður þarf að taka meðvitaða ákvörðun um að verða sveitarfélag þar sem eftirsóknarvert er að eldast.

Kristín Thoroddsen,
bæjarfulltrúi og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2