Mánudagur, janúar 26, 2026
HeimFréttirPólitíkHilmar sækist eftir 3. sæti á D-lista

Hilmar sækist eftir 3. sæti á D-lista

Hilmar Ingimundarson gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði sem fram fer 7. febrúar næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hilmari.

Hann hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 2005 og hefur í rúm tuttugu ár verið virkur þátttakandi í samfélagi bæjarins, bæði í starfi og félagslífi í tengslum við íþróttaþátttöku barna sinna. Undanfarin tvö ár hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Fimleikafélagsins Björk, eins stærsta íþrótta- og æskulýðsfélags bæjarins, þar sem hann hefur leitt öflugt starf í nánu samstarfi við foreldra, starfsfólk og bæjaryfirvöld.

Hilmar hefur verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og setið í umhverfis- og samgöngunefnd flokksins, þar sem áhersla hefur verið lögð á samgöngumál, skipulag og leiðir til að einfalda fólki að takast á við áskoranir í daglegu lífi. Þar hefur hann unnið út frá þeirri meginsýn að stjórnvöld eigi að stuðla að góðri og skilvirkri þjónustu, meðal annars með  vel ígrunduðum skipulagsákvörðunum, traustum innviðum og skýrri forgangsröðun verkefna sem og að gæta hófs í skattaálögum.

Hilmar hefur verið fulltrúi í Kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, Fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og stjórnarmaður í Sjálfstæðisfélaginu Fram í Hafnarfirði. Þá hefur Hilmar einnig komið að mótun Hjólastefnu Hafnarfjarðar 2023–2029 og tekið þátt í vinnu um framtíðarlausnir varðandi húsnæði Brettafélags Hafnarfjarðar. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Hilmar setið sem aðalfulltrúi í fræðsluráði Hafnarfjarðar og tekið sæti sem varamaður í bæjarstjórn. Sú reynsla hefur veitt dýrmæta innsýn í rekstur bæjarfélagsins og vinnu við stefnumótun um uppbyggingu bæjarins og velferð bæjarbúa.

Hilmar leggur ríka áherslu á ábyrga fjármálastjórn og að öflug lögbundin grunnþjónusta gangi ávallt fyrir.  Hilmar vill jafnframt efla skóla-, frístunda- og íþróttastarf í bænum og  stuðla þannig að því að Hafnarfjarðarbær verði áfram og ávallt í hópi þeirra bestu í að tryggja aðbúnað og aðstöðu til að ala upp börn og unglinga í bænum. Hann horfir til þess að Hafnarfjörður haldi áfram að vera þekktur sem íþrótta- og útivistarbær, þar sem markvisst er stutt við íþrótta- og tómstundastarf og aðstaða verði sköpuð með hvatningu til allra aldurshópa um þátttöku í hreyfingu og líkamsrækt  við hæfi. Hann telur nauðsynlegt að halda áfram að innleiða stafrænar lausnir sem nýtast til að hagræða í rekstri sem og að einfalda ferla og stytta biðtíma íbúa eftir þjónustu og svörum.

Hilmar er kvæntur Elísabetu Birgisdóttur, sjúkraþjálfara, og eiga þau þrjú börn.

Nánari upplýsingar um framboðið má finna á vefsíðunni www.hilmari.is.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2