Árlega fitjar Fuglavernd upp á talningu garðfugla yfir eina Helgi og verður Garðfuglahelgin 23-26. janúar.
Í tilkyningu segir að gott sé að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla.
Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma yfir tiltekna Helgi, skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.
Hjálparblað fyrir börn
Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá hefur Fuglavernd útbúið: Garðfuglar – Hjálparblað með myndum sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.
Skilafrestur er til og með 15. febrúar 2026.
Skráning niðurstaðna
Þú getur valið þá leið sem þér hentar best til að skrá niðurstöðurnar að lokinni athuguninni. Við mælum með rafrænni skráningu, þar sem gögnin eru þá slegin inn og fara beint í gagnagrunn þar sem hægt er að vinna úr niðurstöðunum. frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Fuglaverndar: SKRÁNING
Fuglavernd hvetur alla sem hafa snefil af áhuga á fuglum að taka þátt.
Garðfuglahelgin 2025
Hin hefðbundna Garðfuglahelgi Fuglaverndar var dagana 24. − 27. janúar 2025. Athugunarstaðir voru alls 49 og sáust fuglar í 41 görðum (84%). Skráðir þátttakendur voru 57, sem var miklu verri þátttaka en í Garðfuglahelgi 2024.
Enginn ný tegund sást að þessu sinni, í gegnum tíðina hafa alls sést 44 tegundir í Garðfuglahelgi, síðast sást ný tegund árið 2023. Flestir fuglar voru skráðir í garði á Stokkseyri (732) og flestar tegundir voru sjö í garði í Stykkishólmi.
Að þessu sinni voru hrafnar skráðir hjá flestum athugendum, rúmlega helmingur þátttakenda skráir hjá sér hrafn. Þar á eftir koma svartþrestir hjá tæplega helmingi þátttakenda. Auðnutittlingar, snjótittlingar og starar sjást á meira en 30% athugunarstaða, skógarþrestir eru skráðir hjá tæplega 30%. Aðrar tegundir sjást á fáeinum stöðum (1. tafla). Snjótittlingarnir voru langflestir (1.583 fuglar), það er rúmlega helmingur allra fugla sem voru skráðir þessa helgi, enda snjór víða og jarðbönn. Snjótittlingahóparnir voru líka stærstir, að meðaltali voru 93 fuglar á þeim 17 athugunarstöðum sem snjótittlingar voru skráðir. Starar komu þar á eftir, þeir voru mun færri, alls 621 á 16 stöðum, töluvert var af auðnutittlingum (449), svartþröstum (127) og skógarþröstum (121). Aðrir fuglar voru fáir, einungis einn flækingsfugl sást, en það var bókfinka. Það kom ekki á óvart þar sem lítið var um flækingsfugla haustið áður.



