100 ár frá fyrstu útvarpsútsendingu á Íslandi sem var frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði.
Það var sunnudaginn 31. janúar árið 1926 að útvarpað var sjómannamessu frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Þetta var fyrir daga ríkistúvarpsins en Ottó B. Arnar símfræðingur hafði fengið leyfi til að stofna og starfrækja útvarpsfélag sem hét H.F. Útvarp. Sendi stöðin út frá 1926 til 1928.
Biskup Íslands hafði óskað eftir því að sjómannmessur yrðu haldnar þennan dag í kirkjum landsins. Skipsskaðar voru tíðir á þessum árum og í Halaveðrinu mikla, 8. febrúar árið áður höfðu farist tveir togarar, Leifur heppni og Robertson, sem gerður var út frá Hafnarfirði.
Sjóslys eins og þetta hafði mikil áhrif á lítið bæjarfélag eins og Hafnarfjörð og minningarathafnir höfðu verið haldnar í báðum kirkjum bæjarins þegar togararnir höfðu verið taldir af í febrúar 1925.

Var raddstyrkur prestsins sem réð valinu?

Messa sem haldin var í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og öðrum kirkjum voru því bæði sjómannamessur og minningarmessur um þá sem höfðu farist í Halaveðrinu mikla.
Ekki er vitað hvers vegna Ottó B. Arnar valdi Fríkirkjuna í Hafnarfirði til að útvarpa frá. Kannski var ástæðan sú að sr. Ólafur Ólafsson var raddsterkur maður sem var ekki verra í svona útsendingu en hann var líka þjóðþekktur klerkur og stjórnmálamaður sem borin var virðing fyrir.
Þá er líklegt að það hafi haft sín áhrif að símstöðin í Hafnarfirði var í næsta nágrenni við Fríkirkjuna og stutt að leggja leiðsluna þangað og símsenda svo til Loftskeytastöðvarinnar á Melunum í Reykjavík þaðan sem útsendingin fór í loftið.
Í Öldinni okkar segir um útsendinguna: „Er símþráður lagður í kirkjuna og áhald sett þar er tekur við ræðunni og söngnum og ber til útvarpsstöðvarinnar á Melunum.“
Þá segir líka: „Ræða sr. Ólafs Ólafssonar frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði, sú er hann talaði í útvarpið á sunnudaginn mun hafa heyrst víða og langt. T.d. heyrðist hún vel á Gulltoppi vestur á Hala. Apríl heyrði og greinilega til ræðumanns, en skipið var 200 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum.“
Útvarpsmessa í Fríkirkjunni á sunnudag
Hollvinir um sögu útvarps á Íslandi lögðu fram ósk um að minnast þessar fyrstu útvarpsútsendingar með útvarpsguðþjónustu frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði á 100 ára afmælinu síðasta sunnudag janúar, 25. janúar kl. 11.
Féllst Ríkisútvarpið á að útvarpa þessari guðsþjónustu beint.
Sigurður Harðarson, rafeindavirki, sem er mikill áhugamaður um sögu útvarps hefur haft frumkvæði að því minnast þessa atburðar. Þá hefur Birgir Arnar sem er sonur Ottós B. Arnar sem stóð á bak við þessari frjálsu útvarpsstöð sömuleiðis sýnt þessu mikinn áhuga og veitt gagnlegar upplýsingar.
Reglulegar útvarpssendingar hófust síðan 18. mars 1926 en Ríkisútvarpið var stofnað 1930.



