Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur gert kröfu um að farið verði í ljósastýringu við hringtorgið á mótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu til reynslu strax. Tók bæjarráð undir kröfuna á fundi sínum 8. janúar sl.
Rökstuðningur fyrir kröfunni byggir á greiningum COWI og Vegagerðarinnar frá 2025 en Reykjanesbrautin klýfur bæinn og hamlar eðlilegu flæði innanbæjar. Yfir 36.000 ökutæki fara um kaflann daglega, en meirihlutinn er gegnumumferð sem tefur verulega fyrir íbúum í Setbergi og við Lækjargötu.
Krafist er ljósastýringar við hringtorgið sem fyrst sem sem eiga að stytta biðraðir á hliðargötum úr ríflega 900 metrum í 60 metra. Þá á aðgerðin á að draga úr gegnumakstri um íbúðahverfi og Flóttamannaveg, en tafir á Reykjanesbrautinni valda nú þegar auknu álagi þar.
„Þetta er nauðsynleg bráðabirgðalausn þar til framtíðarlausn Reykjanesbrautar fer í framkvæmd, göng eða annað, samkvæmt samgöngusáttmála,“ segir í samþykktinni.
Ráðið fól umhverfis- og skipulagssviði að fylgja málinu eftir við Vegagerðina. Mikilvægt sé að brugðist verði við þessu brýna hagsmunamáli íbúa án frekari tafa.



