Keppni í klifri á Reykjavíkurleikunum lauk í gær þegar úrslit í opnum flokkum í grjótglímu fóru fram hjá Fimleikafélaginu Björk.
Keppt var á færanlegum keppnisvegg í eigu Klifurfélags Reykjavíkur en veggnum var komið fyrir í elsta húsinu.
Átta konur og átta karlar komust í úrslitin og voru keppendur í úrslitum frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Póllandi ásamt okkar keppendum frá Íslandi.
Áhuginn ver greinilega mikill því áhorfendur fylltu salinn og hvöttu keppendur vel.
Keppendur klifruðu fjórar leiðir sem hver gat mest gefið 25 stig og voru því 100 stig í pottinum. Keppendur gátu fengið 10 stig fyrir að ná að nota merkt miðju grip og toppgripið gaf svo 25 stigin en fyrir hverja tilraun eru dregin 0,1 stig frá. Keppendur fengu 4 mínútur til að reyna við leiðina eins oft og þau vildu.
Úrslit
Alls voru 8 keppendur í vorum flokki.
Í karlaflokki sigraði Albin Mayer frá Svíþjóð. Albin er mjög sterkur klifrari og varð Norðurlandameistari í greininni árið 2024. Hann endaði með 69 stig.
Paulo Guðrúnarson fylgdi honum eftir í öðru sæti með 59 stig og Garðar Logi Björnsson varð í þriðja með 44,9 stig.

Í kvennaflokki sigraði hin sænska Clara Stricker-Petersen en hún vann keppnina bæði 2024 og 2025. Hún klifraði af miklu öryggi í úrslitunum og tryggði sér sigurinn þriðja árið í röð með 84,5 stigum.
Maja Juscinska frá Póllandi varð í öðru sæti með 73,9 stig og Jenný Þóra Halldórsdóttir varð í þriðja sæti með 60 stig.
Heildarúrslit kvenna:
- Clara Stricker-Petersen
- Maja Juscinska
- Jenný Þóra Halldórsdóttir
- Lukka Mörk Blomsterberg
- Agnes Folkmann
- Rosa Arnold
- Sigrún Vala Valgerðardóttir
- Dagbjört Lilja Oddsdóttir
Heildarúrslit karla:
- Albin Meyer
- Paulo Guðrúnarson
- Garðar Logi Björnsson
- Aske Wit Mikkelsen
- Hlynur Þorri Benediktsson
- Gunnar Egill Guðlaugsson
- Sólon Thorberg Helgason
- Greipur Ásmundarson
Klifurveggurinn verður hjá Björk
Mikil gleð ríkir í klifursamfélaginu yfir því að keppnisveggurinn sé kominn upp varanlega hjá Klifurdeild Fimleikafélagsins Björk en mikil vöntun hefur verið á keppnisastöðu í greininni.
Veggurinn er hannaður til að vera færanlegur og hefur hann verið settur upp í Laugardalshöllinni tvisvar áður en markmiðið hefur verið að finna honum varanlegan stað.
Veggurinn mun einnig nýtast Klifurdeild Bjarkar við æfingar en þar er rekið öflugt barna- og unglingastarf.
Undanúrslitin höfðu farið fram í Húsnæði Klifurfélags Reykjavíkur á sunnudaginn.















