Föstudagur, janúar 30, 2026
HeimFréttirAtvinnulífFeel Iceland ehf. og kollagenið

Feel Iceland ehf. og kollagenið

Fyrirtækið hefur komið sér vel fyrir við Strandgötuna

Fyrirtækið Feel Icland ehf. sem framleiðir hágæða kollagen er með höfuðstöðvar sínar að Strandgötu 29, húsi sem Þórður Edilonsson, læknir, byggði og gekk lengi undir nafninu Sjálfstæðishúsið. Hrönn Margrét Magn­ús­­dóttir er eigandi og fram­kvæmda­­stjóri og segist hún vilja laga húsið að utan, sem næst í upprunalegri mynd.

Verðmæti úr hráefni sem var áður hent

Saga fyrirtækisins hófst í kringum árið 2013. Á þeim tíma var roði af fiski hent í miklu magni og fyrirtæki þurftu að greiða fyrir urðun á því. Í dag hefur dæmið snúist við; fiskroð er orðið eftirsótt hráefni í gæludýrafóður, mat­væli og ekki síst kollagen. Hrönn Margrét Magnúsdóttir segir í samtali við Fjarðarfréttir að íslenska sjávar­fangs­kollagenið sé einstakt að gæðum þar sem það kemur úr sjálfbærum fisk­veiðum, ólíkt mörgu erlendu kollageni sem unnið er úr eldisfiski, kúm eða svínum þar sem sýklalyfjanotkun getur verið vandamál.
Fyrirtækið var stofnað af konum fyrir konur og fjögurra barna móðir úr Garðabæ sá tækifæri til að nýta fiskroð þegar hún sá á bát hjá tengdaföður sínum að hægt væri að nýta fiskinn betur og þá sérstaklega fiskroðið.

Kollagenið frá Feel Iceland er unnið úr villtum íslenskum fiski. Kollagenið er vatnsrofið með sýrum og ensímum til þess að minnka stærð mólíkúlanna svo upptaka í mannslíkamanum sé betri. Engum erfðabreytt efni eru notuð í ferlinu og engum efnum er bætt í kollagenið sem er alveg hreint prótein.

Hrönn Margrét Magnúsdóttir

Samstarf og aðskilnaður við Ölgerðina

Árið 2017 hófst samstarf við Öl­­gerðina um þróun á drykknum Collab, sem kom á markað 2019 og inniheldur kollagen frá fyrirtækinu. Drykkurinn varð á skömmum tíma einn vinsælasti drykkur landsins og í kjölfarið keypti Ölgerðin fyrirtækið. Það kom þó í ljós að áhugi Ölgerðarinnar lá fyrst og fremst í drykkjarvörunni. „Ég kaupi til baka Feel Iceland vörumerkið og fæðubótarefnin þar sem Ölgerðin hafði mestan áhuga á drykknum og öllu sem því fylgdi,“ segir Hrönn. Hún er nú eini eigandi Feel Iceland og heldur áfram að þróa vörur undir því merki. Í dag er Feel Iceland með fjölbreytt vöruúrval.

Hvernig virkar þetta?

„Kollagen er hreint prótein sem líkaminn notar til að byggja upp vefi,“ segir Hrönn og bendir á að stærsti hluti beina okkar sé kollagen og neysla þess hafi góð áhrif á liði, bein og liðbönd. Áhrif á húð, hár og neglur séu oft talin aukaverkun þó margir sækist eftir því.
„Rannsóknir hafa sýnt að hópur sem tók inn kalk og kollagen í 12 mánuði mældist með 8% meiri beinþéttni en sá hópur sem tók eingöngu kalk. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir fólk eldra en 25-30 ára, þar sem líkaminn þarf þá meiri stuðning,“ segir Hrönn.

Framleiðsla á heimsmæli­kvarða og pökkun í Grenivík

Þótt varan sé íslensk fer vinnslan fram víða. Fiskroðið er sent til Kanada þar sem það er unnið með ensímum og þurrkað í fullkomnustu verksmiðju á þessu sviði til að tryggja gæði, hreinleika og bragðleysi. Fullunnið duftið er svo sent aftur til Íslands þar sem vörurnar eru pakkaðar og kláraðar á Grenivík.

„Við viljum alltaf vera með mestu gæði sem mögulega er hægt. Gerum allt á Íslandi sem við getum,“ segir Hrönn um ástæður þess að framleiðslan sé ekki öll hér heima.

Kalk úr fiskbeinum

Hrönn segir blaðamanni stolt frá nýjustu vörunni, Bone Health Therapy, sem nýtir ekki bara roðið heldur einnig fiskbeinin.

„Við höfum unnið með tveimur feðg­um að því að vinna kalk og steinefni úr fiskbeinum. Þetta kalk er á sama formi og kalk í mannslíkamanum, sem eykur upptöku þess. Varan inniheldur einnig K2 og D-vítamín til að tryggja að kalkið fari í beinin en ekki æðarnar,“ segir Hrönn um þessa nýju vöru sem getur hentað öllum sem eiga á hættu á að fá beinþynningu.

 

Fréttin birtist fyrst í jólablaði Fjarðarfrétta 18. desember 2025

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2