fbpx
Fimmtudagur, janúar 27, 2022

Opið bréf til starfshóps um miðbæjarskipulag

Skipun starfshóps um miðbæjarskipulag er gleðileg, ekki síst að í honum sitji fulltrúi íbúa. Erindi hópsins er að koma með tillögu að aðferðafræði við áframhaldandi skipulag miðbæjarins. Í því sambandi gæti hópurinn dregið lærdóm af Fornubúðum 5 og örlögum Skipulagslýsingar Flensborgarhafnar frá 2016. Í því ljósi eru hér nokkur góð ráð.

1) Ekki snúa út úr fyrirheitum

Ef fram fer samráðsferli við íbúa og niðurstöður gefnar út, t.d. í skipulagslýsingu – standið við gefin fyrirheit, ekki snúa út úr niðurstöðunum.

Skipulagslýsing Flensborgarhafnar er dæmi um niðurstöðu slíks íbúasamráðs. Meðal helstu niðurstaðna voru: „Lágreistar byggingar sem falli vel að aðliggjandi byggð (s. 8); Byggingamagn á svæðinu verði aukið í góðri sátt við aðliggjandi byggð (s. 56); Hæð nýrrar byggðar verði einnig í góðri sátt við nærliggjandi byggð (s. 56).“

Í ferlinu létu yfirvöld sem nærliggjandi byggð væri aðeins hæstu punktar nágrennisins (t.d. Skipalónið), og að óskir íbúa og fyrirheit um lágreista byggð við höfnina gætu rétt eins þýtt margra hæða blokkir. Sáttin tók aðeins til hæstu punkta, og samtals við lóðarhafa. Íbúar máttu sín einskis.

2) Ekki fella úr gildi niðurstöður íbúasamráðs

Í lok október 2018, einmitt þegar íbúar bentu ítrekað á Skipulagslýsingu Flensborgarhafnar, tóku bæjaryfirvöld sig til og felldu skipulagslýsinguna úr gildi!

Gefin var sú tylliástæða, að skipulagslýsingin stangaðist á við keppnislýsingu fyrir arkitekta um svæðið – þrátt fyrir að keppnislýsingin hafi komið út í janúar 2018 og samkeppnin farið fram þá um vorið. Samkvæmt keppnislýsingunni (s. 2) átti skipulagslýsingin að vera grundvöllur samkeppninnar – svo var hún allt í einu orðin í ósamræmi löngu eftir að keppninni lauk. Merkileg tilviljun að það hafi gerst einmitt þegar íbúar bentu bænum á eigin samþykktir.

Að fella úr gildi niðurstöður íbúasamráðs af því að yfirvöld voru svo óheppin að íbúar bentu á þær, er yfirgangur sem lengi verður í minnum hafður.

3) Hlustið á andmæli, gerið ekki lítið úr þeim

67 formleg andmæli bárust vegna Fornubúða 5 – fáheyrður fjöldi í skipulagsmálum. Í stað þess að staldra við og hlusta, var þessum andmælum sópað út af borðinu. Bæði var lítið gert úr andmælendum í umsögn yfirvalda, og með því hve snögglega andmælin voru afgreidd (einn virkur dagur).

4) Ekki skrifa níðgreinar um íbúa sem andmæla

Níðgrein birtist í Fjarðarpóstinum 15. nóvember s.l., skrifuð af einum meðlima hafnarstjórnar. Greinin var uppfull af rangfærslum og útúrsnúningum. Það lýsir ekki miklum sáttahug yfirvalda að koma svo fram við íbúa.

5) Gefið ekki út framkvæmdaleyfi á fölskum forsendum

Þegar byggingarleyfi Fornubúða 5 var fellt úr gildi, fyrst vegna kæru, svo handvammar yfirvalda, var gefið út leyfi til að steypa „gámastæði“ á lóðinni. Þetta gerði verktökum kleift að klára frágang við grunn Fornubúða 5 þrátt fyrir að byggingarleyfi væri ekki í gildi. Stjórnsýsla sem seint telst til fyrirmyndar.

6) Íbúar eru ekki pólitískir andstæðingar

Ekki meðhöndla almenna íbúa sem pólitíska andstæðinga vegna þess að þeir benda á samþykktir bæjaryfirvalda og veita aðhald. Látið sáttina ná til okkar allra, ekki aðeins verktaka og lóðarhafa.

Með ósk um velfarnað í störfum.

Nánar á www.sudurbakki.is

Guðmundur I. Markússon og Sigurjón Ingvason, íbúar í Suðurbæ.

 

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, fréttablaði Hafnfirðinga 1. maí 2019

Ummæli

Ummæli

Tengdar fréttir

Fylgjstu með

3,320AðdáendurLíka við
53FylgjendurFylgja
0áskrifendurGerast áskrifandi
- Auglýsing -spot_img

Nýjustu greinar