Haukar komnir upp að vegg eftir sigur Selfoss í háspennuleik í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla.
Selfoss vann fyrsta leikinn nokkuð örugglega á Ásvöllum 27-22 en Haukar komu sterkir inn í annan leikinn á Selfossi og vann leikinn 27-26 eftir að Selfoss hafði verið yfir í hálfleik 14-11.
Leikurinn í dag á Ásvöllum var gríðarlega spennandi. Markatalan var jöfn framan af fyrri hálfleik en þá náðu Haukar 3 marka forystu. Selfyssingar komu sterkir til baka og leikurinn jafnaðist og voru Haukar með eins marks forystu í hálfleik 15-14.
Haukar voru svo sterkari framan af seinni hálfleik og náðu mest 5 marka forystu þegar um 10 mínútur voru eftir. Þá skoruðu Selfyssingar 5 mörk í röð og þegar venjulegum leiktíma lauk var staðan jöfn, 27-27.
Í framlengingunni var Selfoss sterkari og Haukar náðu aldrei að jafna. Í seinni hálfleik framlengingarinnar náðu Selfyssingar 3 marka forystu en Haukar minnkuðu muninn á lokasekúndunum í 30-32.
Selfyssingar þurfa aðeins að vinna einn leik til að hampa Íslandsmeistaratitlinum en Haukar eru örugglega ekki á þeim buxunum og stefna að sigri í næstu tveimur leikjum.
Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoraði flest mörk Hauka, 5 mörk, Adam Haukur Baumruk skoraði 6 og Orri Freyr Þorkelsson skoraði 5.
Hjá Selfossi var Atli Ævar Ingólfsson markahæstur með 10 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 6 mörk og Hergeir Grímsson skoraði 5 mörk.
Næsti leikur verður á Selfossi á miðvikudaginn kl. 19.30.