Haukar komnir í úrslitaeinvígið eftir æsispennandi leik á Ásvöllum – MYNDAVEISLA

Haukar mæta Selfossi í úrslitaeinvíginu

Halldór Ingi Jónasson skoraði 6 mörk úr 6 skotum.

Haukar mættu ÍBV í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmeistaramótsins í handbolta í dag. Haukar mæta Selfossi í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn eftir frækinn sigur.

Bæði lið höfðu unnið sína tvo heimaleiki og fór því í oddaleik á Ásvöllum í dag. Árið 2014 mættust liðin einnig í oddaleik á Ásvöllum en þá um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Eyjamenn höfðu betur.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel og skoruðu 3 fyrstu mörkin. Haukar héldu þriggja marka forystu meiri hluta fyrri hálfleiks þangað til að Eyjamenn gáfu aðeins í. Eyjamenn náðu mest að minnka muninn niður í eitt mark undir lok fyrri hálfleiks. Eyjamenn fengu tækifæri að minnka muninn aftur niður í eitt mark alveg í lok fyrri hálfleiks úr vítakasti en Andri Sigmarsson Scheving varði skot Hákonar Daða. Staðan í hálfleik var 13:11

Haukamenn komu ákveðnir úr búningsklefanum og náðu sex marka forystu eftir nokkrar mínútur, 19:13. Eyjamenn voru lengi að koma sér aftur inn í leikinn en þeir spýttu í lófana þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum. ÍBV náði að minnka muninn niður í tvö mörk í stöðunni 28:26 en skoruðu heimamenn seinasta mark leiksins sem endaði 29:26.

Fyrsti leikur í úrslitaeinvíginu er á þriðjudaginn þar sem Selfyssingar koma í Hafnarfjörðinn.

Ummæli

Ummæli