Það var mikið undir hjá báðum liðum þegar karlalið FH og Hauka mættust í Kaplakrika í kvöld. Fyrir utan montréttinn sem alltaf er keppt um, þá gátu bæði liðin komist á toppinn í úrvalsdeildinni.
Eins og búast mátti við þegar þessi lið mætast, þá var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda. Í fyrri hálfleik skiptust liðin á að hafa forystu en Haukar náðu mest 3ja marka forskoti en staðan var þó jöfn í hálfleik, 15-15.
FH kom sterkari til leiks í seinni hálfleik og höfðu forystu nær allan hálfleikinn. Töluverð harka var í leiknum en alls ekki nein illindi og reyndar mátti sjá skemmtileg samskipti leikmanna FH og Hauka. Það heyrðist þó hátt í leikmönnum á varamannabekkjunum og liðsfólki sem hvatti sitt lið vel.
Aron Kristjánsson þjálfari Hauka lét leikhitann þó æsa sig hressilega undir lok leiksin og hreinlega öskraði á sína menn að það væri hann sem stýrði þessu liði. Óþarfi er að hafa eftir orðbragðið sem einkenndist af hita leiksins.
FH-ingar komust í 3ja marka forskot í stöðunni 20-17 en Haukar komust inn í leikinn á ný og náðu að komast yfir í fyrsta sinn í seinni hálfleik 28-27 þegar örstutt var eftir. FH jafnaði svo og Phil Döhler markmaður FH skoraði langsum yfir völlinn í autt mark Hauka og kom Heimis Óla Heimissonar sem fiskaði víti sem Ólafur Ægir Ólafsson skoraði úr og aðeins 7 sekúndur eftir.
Birgir Már Birgisson fékk boltann í dauðafæri í hægra horninu en flautan gall, broti úr sekúndu áður en hann skaut og jafntefli var niðurstaðan í þessum spennandi leik.
Egill Magnússon var gríðarlega sterkur hjá FH og skoraði 7 mörk og Ásbjörn Friðriksson, kjarnastykkið í liði FH skoraði 6. Phil Döhler skoraði 2 mörk í autt mark Hauka.
Hjá Haukum var Orri Freyr Þorkelsson markahæstur með 8 mörk og Geir Guðmundsson sem skoraði 7 mörk.