Skipulag við Reykjavíkurveg samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2

Ásýnd að Reykjavíkurvegi 60-62

Tillaga að uppbyggingu á reit sem liggur að Reykjavíkurvegi, Hjallahrauni og Helluhrauni var tekin fyrir á fundi í skipulags- og byggingarráði í gær. Var þar lögð fram til samþykktar tillaga Tendru arkitekta frá 28. maí 2020 að deilskipulagi reits sem nær til lóða við Reykjavíkurveg 60-62 og Hjallahrauns 2-4.

Ekki var samstaða um tillöguna sem var samþykkt með 3 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gegn 2 atkvæðum minnihluta og að málsmeðferð verði í samræmi við 1.mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Erindinu er jafnframt vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

Skipulagstillagan

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar segir að fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga opni á fjölbreytta byggð íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Tillagan falli vel að markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins þar sem meginstefnan sé uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði og að hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66%.

Þá segir í bókuninni að deiliskipulagstillagan sé í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur.

Alls ekki í samræmi við rammaskipulag

Fulltrúar Bæjarlistans, Samfylkingar og Viðreisnar furðuðu sig hins vegar á því í bókun hvernig meirihlutinn geti fullyrt að deiliskipulagstillagan sé í samræmi við rammaskipulagið, þegar aukning á byggingarmagni sé um 60% frá rammaskipulagi!

Reykjavíkurvegur fremst

Tillagan víki í meginatriðum of mikið frá vandaðri rammaskipulagsvinnu til þess að fulltrúar flokkanna geti samþykkt hana að svo stöddu. Hæðir húsa aukist úr 4-6 hæðum upp í átta hæðir með tilheyrandi skuggavarpi þar sem engin sól muni koma í inngarða sex mánuði á ári, mikil aukning byggingarmagns og fjölgun íbúða.

Þá segir í bókun flokkanna að rými fyrir verslun og þjónustu hafi verið minnkað verulega sem dragi úr blöndun byggðar og bílastæðamagn sé stóraukið og inngarðar fylltir af bílastæðum.

„Það er ómögulegt að átta sig á því hvaða áhrif þessi gríðarlega framúrkeyrsla úr rammaskipulagi hefur á hverfið í heild sinni hvað varðar skólamál, umferðarmál og umhverfisgæði. Engin svör berast frá meirihlutanum um það hvort næstu reitir innan rammaskipulags Hrauna muni fylgja rammaskipulaginu eða hvort þetta deiliskipulag verði fjölfaldað um öll hraunin með óhóflegu byggingarmagni, bílastæðum og án grænna svæða eða nauðsynlegri grunnþjónustu.”

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar segja það hins vegar staðfasta skoðun meirihluta að framkomin deiliskipulagstillaga sé í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur.

„Hér er um að ræða enn eitt skipulagsmálið þar sem minnihlutinn reynir í örvæntingu sinni að leggja stein í götu kröftugrar og skynsamlegrar uppbyggingar innan Hafnarfjarðar,” segir í bókun Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Samþykkt rammaskipuag aldrei formlega samþykkt í bæjarstjórn

Mikil vinna var lögð í gerð rammaskipulags fyrir svæðið Hraun vestur, svæði sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Flatahrauni og Fjarðarhrauni og var í markaðsskyni kallað 5 mínútna hverfið. Arkitektasamkeppni var um þróun svæðisins og rammaskipulag unnið í sátt og samvinnu við lóðarhafa á svæðinu. Rammaskipulagið var samþykkt samhljóða í skipulags- og byggingarráði en fyrir handvömm var það ekki borið sérstaklega upp í bæjarstjórn heldur staðfesti bæjarstjórn fundargerð ráðsins án athugasemda.

Þegar fólk áttaði sig á því að rammaskipulagið hafði ekki hlotið lögformlegt ferli höfnuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að taka það til formlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn enda höfðu lóðarhafar á þeim hluta sem nú er verið að fjalla um gert kröfur um stórlega aukið byggingarmagn og mun hærra hlutfall íbúða en þessir sömu aðilar hafa keypt upp nær allar eignir á svæðinu. Svæðisskipulagið hefur ekkert breyst eftir að rammaskipulagið var gert og engar auknar kröfur hafa verið gerðar svo greinilegt er að það eru eingöngu hagsmunir lóðarhafa sem nú eru hafðir að leiðarljósi.

Fundargerð skipulags- og byggingarráð má lesa hér.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here