Fyrirtækinu Syðra-Langholti í eigu Steinþórs Einarssonar garðyrkjumeistara var árið 2006 úthlutað 37.500 m² lóð undir garðyrkjustöð og ræktun á Þorlákstúni, í hlíð ofan við Reykjanesbrautina við Hvaleyrarholt.
Skv. lóðarleigusamningi fyrir Lyngbarð 2 sem var til 25 ára frá 2006, var ekki greitt sérstaklega fyrir lóðina eins og gert er fyrir atvinnulóðir en ársleiga var 0,35% af fasteignamati hennar. Átti að leggja inn framkvæmdaáætlun fyrir 1. sept. 2006 og fullgera átti lóð ásamt framkvæmdum fyrir 1. maí 2010. Í samningnum kemur svo fram að verði vanefndir af hálfu lóðarhafa, fellur lóðarúthlutunin niður án frekari fyrirvara.
Nær engar framkvæmdir hafa verið á lóðinni frá 2006 en sk. Marteinshús var flutt frá Suðurgötu á lóðina en húsið keypti lóðarhafi af Hafnarfjarðarbæ.
Engin framkvæmdaáætlun var lögð fram og taldi Hafnarfjarðarbær að svo verulegar vanefndir væru á samningnum að hann væri niður fallinn.
Í lok júní 2016 sendi fyrirtækið inn fyrirspurn um að byggja þarna íbúðabyggð og virðist lítil ánægja vera með þau áform, a.m.k. ekki á forsendum upprunalegs samnings og óskaði skipulags- og byggingarráð eftir umsögn bæjarlögmanns og að lögð verði fram öll tiltæk gögn í málinu.
Bæjarstjórn samþykkti svo 20. desember 2017, með vísan til vanefnda lóðarhafa, Syðra Langholts ehf., á lóðarleigusamningi, dags. þann 28. mars og 4. apríl 2006, og þar sem lóðarhafi hafði ekki, þrátt fyrir áskoranir Hafnarfjarðarkaupstaðar um að bæta úr þeim vanefndum, og viðræður um aðra lausn málsins sem ekki skiluðu árangri, að beita heimild í 18. gr. framangreinds lóðarleigusamnings, og lýsti því yfir að lóðarúthlutun Hafnarfjarðarkaupstaðar til Syðra Langholts ehf. á lóðinni Lyngbarði 2, Hafnarfirði, (Þorlákstún), væri þar með afturkölluð.
Þar sem stefndi, Syðra Langholt vék ekki af lóðinni þrátt fyrir áskoranir stefnanda höfðaði Hafnarfjarðarbær mál það sem Héraðsdómur Reykjaness hefur nú dæmt í.
Gert að víkja af lóðinni
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi svo 19. júní sl. og úrskurðaði að viðurkennt væri að fallin séu niður leiguréttindi stefnda Syðra Langholts ehf. vegna lóðarinnar Lyngbarðs 2, Þorlákstúns, samkvæmt lóðarleigusamningi 4. apríl 2006 við stefnanda, Hafnarfjarðarkaupstað. Ber stefnda Syðra Langholti að víkja af sömu lóð og þola að ofangreindum lóðarleigusamningi verði aflýst úr fasteignabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Þá var sakaukastefndu, Garðyrkju ehf., gert að víkja af lóðinni.
1,8 milljarður kr. áhvílandi á lóðinni
Stefndu, Syðra Langholti og Brandon Charles Rose, var skylt að þola að skuldabréfum á 1. og 2. veðrétti fasteignarinnar Lyngbarð 2, Þorlákstúni, að fjárhæð 1.200.000.000 krónur og 600.000.000 krónur, útgefnum af stefnda Syðra Langholti til handhafa 1. júní 2016 og 15. júní 2016, verði aflýst úr fasteignabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Mátti veðhafa það vera ljóst að á bak við veðið væri ekkert annað en umrætt hús og væntanlegar framkvæmdir á lóðinni sem engar urðu.
Stefnda Syðra Langholti er skylt að afsala til stefnanda veðbandalausu því húsi sem stendur á lóðinni gegn 20.616.000 króna greiðslu frá stefnanda.
Stefndu, Syðra Langholt og Brandon Charles Rose og sakaukastefnda Garðyrkja var gert að greiða Hafnarfjarðarbæ óskipt 1.800.000 krónur í málskostnað.