fbpx
Þriðjudagur, desember 3, 2024
target="_blank"
HeimFréttirÁtakið Hjólað í vinnuna var sett í morgun og stendur til 23....

Átakið Hjólað í vinnuna var sett í morgun og stendur til 23. maí

Átakið Hjólað í vinnuna var formlega sett í morgun með hressilegum hvatningarávörpum góðra gesta.

Heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna er nú haldið í tuttugasta og fyrsta sinn. Það stendur að vanda yfir í þrjár vikur eða til 23. maí. Á þeim tíma eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota annan virkan ferðamáta.

Í vinnustaðakeppni er fyrst og fremst keppt um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustaðnum. Keppt er í átta keppnisflokkum út frá stærð vinnustaða. Að auki er kílómetrakeppni þar sem keppt er á milli liða um annars vegar heildarfjölda kílómetra og hins vegar hlutfall kílómetra miða við fjölda liðsmanna í liði. Líkt og síðustu ár hvetjum við þá sem vinna heiman frá sér að byrja eða enda vinnudaginn á því að hjóla, ganga eða nýta annan virkan ferðamáta sem nemur kílómetrum til og frá vinnu. Einfaldara getur það ekki verið og allir geta tekið þátt.

Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Undanfarinn áratug hefur orðið gríðarleg vakning á hjólreiðum sem heilsusamlegum og umhverfisvænum samgönguvalkosti. Ætla má að margir þátttakendur hafi tekið hjólreiðar upp sem lífsstíl í framhaldi af þátttöku sinni í verkefninu.

Allar upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á www.hjoladivinnuna.is en þar má finna reglur keppninnar, hvatningarbréf, veggspjöld og fleira.

Hvatningarávörp við setningu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði að Hjólað í vinnuna væri eitt það markverðasta og mikilvægasta lýðheilsuverkefni sem sett hafi verið af stað á undanförnum áratugum. Allt sem ýtir undir heilbrigðan lífsstíl er ótrúlega mikilvægt, bæði fyrir fólkið sem tekur þátt í svona verkefni og ekki síður heilbrigðiskerfið. Allt skiptir máli þegar kemur að hreyfingu.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra fjallaði um mikilvægi góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu og hvað svona verkefni væri frábært fyrir loftslag og umhverfi. Fólk væri í meira mæli að nýta sér umhverfisvænan ferðamáta og það væri auðveldara nú en áður þar sem búið væri að gera góða hjólastíga á flestum stöðum. Þetta verkefni væri gott fyrir fólkið og gott fyrir umhverfið.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri talaði um hvað hjólreiðar væru frábær samgöngumáti og á þessu ári væri t.d. verið að koma upp hjólagrindum og aðstöðu fyrir hjól, við alla skóla í borginni. Hjólreiðasamfélagið sé orðin fjöldahreyfing og hjólið orðinn samþykktur samgöngu- og ferðamáti, það eigi að mæta þessari fjöldahreyfingu og gera betur.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar nefndi að það væri svo mikilvægt að þeir sem geti hjólað geri það til að létta á bæði umferð og loftgæðum. Varðandi keppnina sjálfa þá skoraði hún á þátttakendur að taka lengri leiðina heim og njóta umhverfisins.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF, minnti á að það eru börnin sem taka skellinn þegar kemur að slæmum loftgæðum, ekki bara hér á Íslandi heldur um heim allan. Í ár hafa UNICEF og Hjólað í vinnuna tekið höndum saman. Fyrirtækjum sem taka þátt í Hjólað í vinnuna verður gefin kostur á að styrkja Loftlagssjóð í gegnum áheit.

Hafnfirðingurinn Úlfar Linnet hjólreiðakappi sá til þess að fólk fór út með bros á vör.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2