fbpx
Laugardagur, maí 18, 2024
HeimUmræðanVöndum til verka fyrir Hafnfirðinga

Vöndum til verka fyrir Hafnfirðinga

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Ég hef alltaf átt auðvelt með að finna til stolts þegar ég hugsa um Hafnarfjörð, sem alla tíð hefur verið þekktur fyrir kraftmikið íþróttalíf og fjölbreytta menningarsögu. Lýsingin á alveg jafn vel við nú og árum áður. Bæjarstoltið leynir sér ekki þegar Hafnfirðingar eru spurðir álits og í því felast mikil tækifæri. Íbúar bæjarins geta auðveldlega tekið höndum saman og gert þennan frábæra bæ okkar enn betri og líflegri.

Til þess þurfa bæjaryfirvöld samt að tala skýrt. Vera með ábyrga stefnu og standa við gefin fyrirheit. Því miður hefur það ekki alltaf verið raunin. Ekki hefur vantað kosningaloforðin, en minna gert þegar svo þarf að standa við þau. Þar er sífellt verið að draga lappirnar.

Íbúaflóttinn og ráðleysi bæjaryfirvalda

Meirihlutinn í Hafnarfirði hefur verið hávær í umræðunni um stöðu Reykjavíkurborgar. Kröftum þeirra væri þó betur varið hér heima. Því staðan er hvergi verri á höfuðborgarsvæðinu en í Hafnarfirði, hvort sem litið er til skuldsetningar bæjarins eða framboðs á húsnæði. Skuldirnar eru allt að 50% hærri þegar litið er til hlutfallsfjölda íbúa og eins þegar horft er til skulda sem hlutfall af tekjum. Það er kannski erfitt fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsókn að viðurkenna eigin óstjórn en tölurnar tala sínu máli.

Það gengur illa að laða að nýja íbúa á meðan staðan er þessi. Fælingaráhrifin af ráðleysi bæjaryfirvalda eru svo mikil að aðrir kostir bæjarins duga ekki til. Það geta Hafnfirðingar ekki sætt sig við. Með réttu ætti að vera slegist um tækifærið til að búa hér í fallegu umhverfi og í samfélagi sem einkennist helst af náungakærleik og samheldni bæjarbúa. Veruleikinn er þó sá að íbúum hefur fækkað undir stjórn meirihlutans. Gott ef ekki að bæjarstjórinn hafi tvisvar afhent þrjátíuþúsundasta íbúanum blómvönd. Eða var það þrisvar?

Hvers virði er rödd Hafnfirðinga?

Það má líka halda því til haga að þeir flokkar sem tilheyra núverandi bæjarmeirihluta eru mótfallnir því að atkvæði Hafnfirðinga vegi jafn þungt og atkvæði annarra íbúa í Alþingiskosningum. Þrátt fyrir að flestir flokkar reyni almennt að fylgja jafnréttisjónarmiðum í dag eru enn flokkar sem berjast gegn jöfnu atkvæðavægi kjósenda. Gegn því að við séum öll jöfn þegar kemur að því að ákveða hvernig samfélag við viljum byggja. Eitt stærsta réttlætismálið í dag er vinda ofan af þessu misrétti, en stjórnarflokkanarnir eru á öðru máli.

Tækifærin eru víða

Það er að mörgu að hyggja næstu árin og nú þarf að hefja uppbyggingu með þéttingu og Borgarlínu í huga. Fyrir okkur Hafnfirðinga er sárgrætilegt að fylgjast með metnaðarleysi meirihlutans gagnvart Borgarlínunni. Ekkert mun gerast fyrr en einhvern tímann á næsta áratug á meðan Kópavogsbær verður brátt farinn af stað með tvær Borgarlínuleiðir. Þar var metnaður til staðar og skilningur á nauðsyn þess að hraða verkinu. En viðbrögð meirihlutans í Hafnarfirði hafa einkennst af taugaveiklun og eðlislægri íhaldssemi.

Tækifærin eru mörg víða um bæinn og ýmislegt hægt að gera til að efla starfsemi hér enn frekar. Til dæmis kemur margt til greina samhliða uppbyggingu Tækniskólans. Við þurfum líka að færa stórskipahöfnina og byggja upp annað atvinnusvæði sem tekur vel á móti iðn- og þjónustufyrirtækjum, stórum sem smáum. Með þeim kæmu einnig nýir tekjustofnar sem kæmu sér vel fyrir skuldsettan bæjarsjóð. Í þessu öllu saman gæti Markaðsstofa Hafnarfjarðar stigið inn og leikið mikilvægt hlutverk.

Það þarf líka að stokka upp í skólakerfinu og beita nýrri nálgun í þeim málum. Sjá til þess að skólastjórnendur geti tekið fleiri langtímaákvarðanir eins og með heimild til 3 ára fjárhagsramma. Við þurfum líka að tryggja skólastjórnendum og kennurum aukið faglegt frelsi og í skólakerfinu þarf að tryggja aukið valfrelsi fyrir öll börn, fötluð sem ófötluð. Mikilvægt er að mæta ólíkum þörfum fjölbreyttra nemendahópa og hjálpa þeim að öðlast þau lífsgæði sem við viljum að þau njóti. Á öllum skólastigum, frá leikskóla og upp úr.

Er ekki bara best að vanda sig?

Til að raungera öll þessi tækifæri þarf skýra sýn og kraftmikið fólk fyrir okkur Hafnfirðinga. Það hefur Viðreisn.

Valið er því ósköp einfalt. Gerum betur og vöndum til verka. Setjum almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Alltaf og alls staðar. Merkjum X við C.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
Hafnfirðingur og formaður Viðreisnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2