fbpx
Þriðjudagur, desember 3, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanUngbarnaleikskólar - úrræði eftir fæðingarorlof

Ungbarnaleikskólar – úrræði eftir fæðingarorlof

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir skrifar

Í Hafnarfirði er raunveruleiki foreldra ungra barna, sem ekki eru komin með leikskólavist, alls ekki eins og best verður á kosið. Eftir að fæðingarorlofi lýkur er það eina sem í boði er að leita að dagforeldri til þess að gæta barnsins þannig að foreldrar (oftast móðirin) geti snúið aftur út á vinnumarkað eins og samfélagsgerð okkar ætlast til af foreldrum. Það er ekkert að því að barn sé hjá dagforeldri en vandinn er að það er augljóslega ekki nóg framboð dagforeldra og einnig er það þannig að dagforeldrar geta valið börn sem þau vilja gæta. Það getur því verið blákaldur raunveruleikinn að barn sem er „erfitt“ getur átt mjög erfitt með að fá dagforeldrapláss. Einnig hefur það verið foreldrum erfitt að takast á við veikindafjarvistir vegna sín, barnsins, og dagforeldrisins og barna þess. Þetta er augljóst vandamál.

Þess vegna leggjum við VG til að Hafnarfjarðarbær stofni ungbarnaleikskóla og ungbarnadeildir innan leikskólanna sem taka við börnum þegar fæðingarorlofi lýkur.

Einnig leggjum við til að dagforeldrakerfið taki stórum breytingum. Dagforeldrar eiga að okkar mati að vera starfsmenn sveitarfélagsins. Hafnarfjarðarbær á að búa til skilvirkt kerfi þar sem hvert barn á tvo dagforeldra, eitt aðal og eitt auka dagforeldri sem tekur við barninu ef aðal dagforeldrið er veikt eða börn þess.

Foreldrar geta þannig valið, dagforeldra eða ungbarnaleikskóla fyrir barnið fram að leikskólavist. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir vali foreldra.

VG vilja einnig jafna hlut foreldra. Hvort sem fyrir valinu verður dagforeldri eða ungbarnaleikskóli verður sama mánaðargjald greitt fyrir dagvistunina. Sama mánaðargjald og greitt er í dag fyrir leikskólavistun hjá sveitarfélaginu.

Að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla er ekki einungis mál barnafjölskyldna heldur einnig jafnréttismál þar sem oftar en ekki það er móðir barnsins sem bíður heima með barnið þar til pláss losnar.

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
oddviti VG í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2