Í rafíþróttadeild FH fá iðkendur tækifæri til að kynnast fjölbreyttum tölvuleikjum og bæta sig í öruggu og jákvæðu umhverfi. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða þjálfun þar sem hver og einn fær að vinna með sínum áhugasviðum undir handleiðslu reyndra þjálfara. Markmiðið er að efla leikni og leikskilning en einnig að stuðla að heilbrigðum lífsstíl og góðum samskiptum.
Æfingarnar byggja á jafnvægi milli tölvuleikja, fræðslu og hreyfingar. Þær hefjast á samverustund þar sem rætt er saman eða veitt fræðsla um mikilvæg málefni sem tengjast rafíþróttum, svo sem mikilvægi svefns, jákvæða samvinnu og hvernig hægt er að læra af mistökum. Í kjölfarið tekur við létt upphitun þar sem iðkendur hreyfa sig saman áður en sest er við tölvurnar. Hreyfingin stuðlar að bættri einbeitingu, aukinni vellíðan og skemmtilegri stemningu innan hópsins.
Tíminn við tölvurnar er mismunandi eftir dögum. Stundum fá iðkendur að spila frjálst í samræmi við eigin áhuga en á öðrum æfingum er markviss hópvinna þar sem unnið er með ákveðin verkefni. Þjálfarar fylgjast með og veita leiðsögn eftir þörfum þannig að hver iðkandi fái tækifæri til að vaxa og þróast sem spilari.
Auk almennra hópa býður rafíþróttadeild FH einnig upp á sérhæfðan hóp fyrir metnaðarfulla Fortnite-spilara. Þessi hópur er ætlaður þeim sem vilja dýpka leikskilning sinn og bæta frammistöðu. Áhersla er lögð á kennslu í lykilatriðum Fortnite, svo sem byggingu, ákvarðanatöku og samvinnu. Þjálfunin er einstaklingsmiðuð og tekur mið af styrkleikum og þörfum hvers iðkanda. Jafnframt fá þátttakendur fræðslu um þætti sem hafa bein áhrif á árangur í rafíþróttum, þar á meðal svefn, jafnvægi í leikjanotkun og hvernig hægt er að vinna úr eigin mistökum til að ná framförum.
Yfir önnina verða mót á vegum RÍSÍ þar sem iðkendur fá tækifæri til að keppa við spilara frá öðrum rafíþróttafélögum. Slík reynsla skiptir miklu máli fyrir bæði leikni og sjálfstraust.
Ef námskeið eru fullskráð hvetjum við foreldra og forráðamenn til að skrá börnin á biðlista. Stefnt er að því að bæta við fleiri hópum eftir því sem líður á önnina til að koma sem flestum að.
Skráning fer fram á Abler og nánari upplýsingar má nálgast með því að senda fyrirspurn á netfangið patrekur@eca.gg.”