Þétting byggðar: Skortur á framtíðarsýn

Adda María Jóhannsdóttir skrifar

Adda María Jóhannsdóttir

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í liðinni viku var samþykkt skipulags­lýsing vegna breytingar á aðalskipulagi 2013-2025. Um er að ræða þéttingu byggðar á fimm reit­um í bæjarfélaginu. Í skipu­lags­lýsingunni eru settir fram nokkrir valkostir fyrir hvern reit og eiga verkefnin eftir að þróast frekar í skipulagsferlinu. Reitirnir sem um ræðir eru Óla Run tún, Hringbraut/Flens­­borg, Hraunbrún/Reykja­vík­ur­vegur/Flata­hraun, Flata­hraun/Iðnskólinn og Hlíð­ar­braut 10.

Sjónarmið varðandi þéttingu byggðar

Í janúar 2016 skilaði starfshópur um þéttingu byggðar af sér skýrslu þar sem settar voru fram sviðsmyndir um mögulega uppbyggingu í bænum næsta aldarfjórðunginn. Þar voru ákveðin atriði höfð að leiðarljósi m.a. um sjálfbær samfélög og aukna nýtingu innviða. Í skipulagslýsingunni sem samþykkt var í bæjarstjórn í seinustu viku er einnig vísað í Lands­skipu­lagsstefnu 2015-2026 þar sem talað er um að stuðla beri að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða og eflingu nær­samfélags.

Uppbygging á fjórum reitum í Suðurbænum

Í skipulagslýsingunni er gert ráð fyrir þéttingu á tveimur reitum í Suðurbænum en áður hefur verið unnið að skipulagsbreytingum á tveimur öðrum svæðum, Dvergsreitnum og Suðurgötu 40-44.

Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa bent á að þær miklu breytingar sem fyrirhugaðar eru í þessu hverfi kalli á að hugað sé að heildrænu skipulagi hverfisins og nauðsynlegum innviðum eins og leik- og grunnskólum, sem og aðgengismálum og umferð.

Engin áform um leikskóla

Á síðasta kjörtímabili og það sem af er þessu hafa fulltrúar Samfylkingarinnar barist fyrir því að leikskólaplássum verði fjölgað í Öldutúnsskólahverfi. Við teljum leikskóla mikilvæga nær­þjónustu og höfum lagt áherslu á að börn geti sótt leikskóla innan síns hverfis. Öllum tillögum okkar þar að lútandi hefur verið hafnað. Á fundi bæjarstjórnar sl. miðvikudag fékkst staðfest að engin áform eru um upp­byggingu á leikskóla í þessu hverfi. Það ber ekki vott um skýra framtíðarsýn eða eflingu nærsamfélags að fara í svo mikla þéttingu án þess að huga að nauðsynlegum innviðum og þjónustu við íbúa. Fulltrar Samfylkingarinnar greiddu skipulagslýsingunni ekki at­kvæði.

Adda María Jóhannsdóttir
bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, fréttablaði Hafnfirðinga, 14. febrúar 2019

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here