fbpx
Þriðjudagur, apríl 16, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanÞað á að vera gott að búa í Hafnarfirði

Það á að vera gott að búa í Hafnarfirði

Kristrún Birgisdóttir skrifar

Undanfarið hefur mátt lesa um trausta fjárhagsstöðu bæjarins, viðsnúning í rekstri og því er haldið sérstaklega á lofti að álögur bæjarins hafi verið lækkaðar. Það sem hér hefur verið nefnt tengist fyrst og fremst hagvexti, sem ein­skorð­ast ekki við Hafnarfjörð, og allir en ekki aðeins útvaldir eiga að geta notið.

En hvað er það sem skiptir máli fyrir íbúa Hafnarfjarðar?

Skiptir það t.d. meira máli að fá nokkur hundruð króna lækk­un á álögur á hvern íbúa en að hér sé veitt sjálfsögð og lögbundin þjónusta?

Skiptir það almennt máli að hér búa Hafnfirðingar sem eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði eða skiptir það bara máli fyrir þá sem um ræðir?

Skiptir það máli að barnafólk sem flytur hingað úr öðrum sveitafélögum kemur börnunum sínum seinna inn á leikskóla en ef það hefði ekki flutt og að þess séu dæmi að foreldrar þurfi að reiða sig á barnapössun hjá skyldmennum til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og þess að fá leikskólapláss?

Skiptir það okkur máli að í Hafnarfirði er skortur á úrræðum fyrir eldri borgara sem þurfa á nauðsynlegri aðstoð að halda?

VG vill að lögð verði áhersla á að eyða biðlistum eftir sjálf­sagðri þjónustu því annað er brot á jafnrétti og lögbundinni skyldu sveitarfélaga. Hafnar­fjörður hefur allt sem þarf til að íbúum geti liðið vel. Sem dæmi má nefna að hér eru góðir leik- og grunnskólar og tveir öflugir skólar fyrir nemendur á fram­haldsskólaaldri. Hér er iðandi menning, blómlegt íþrótta- og tómstundastarf og nánast hægt að sækja allar nauðsynjar og þjónustu innan bæjarmarka.

Það á að vera gott að búa í Hafnarfirði fyrir okkur öll en það verður ekki fyrr en við leggjum áherslu á að sinna betur innviðum bæjarins. Þá fyrst getum við sagt að bærinn sé í allra fremstu röð sveitar­félaga og að hér sé gott að búa.

Gerum betur – kjósum VG.

Kristrún Birgisdóttir
sérfræðingur í fram­halds­skólamálum og skipar 3. sæti lista VG.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2