Sterk Samfylking – forsenda breytinga

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Árni Rúnar Þorvaldsson

Vinnubrögð og gildi skipta máli í stjórnmálum. Stjórnmálin í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eru þar engin undantekning. Virðing og traust á bæjarstjórninni aukast í réttu hlutfalli við vönduð og heiðarleg vinnubrögð. Hafi einhver verið í vafa um að slík atriði skipti máli þá hafa starfshættir núverandi meirihluta í Hafnarfirði undir forystu Sjálfstæðisflokksins rækilega minnt okkur á þessi algildu sannindi.

Umdeilanlegt kjörgengi og brottvikningar

Aðaleinkennin á vinnubrögðum núverandi meirihluta eru glundroði og ógagnsæ vinnubrögð. Bæjarfulltrúa með umdeilanlegt kjörgengi – í besta falli – er haldið inni í bæjarstjórn á sama tíma og réttkjörnum varabæjarfulltrúum með kjörgengi sem ekki er dregið í efa er vikið úr öllum ráðum og nefndum bæjarins – allt til þess að þjóna duttlungum Sjálfstæðisflokksins.

Opnuviðtal oddvitans og samskiptastjórinn

Þetta var síðan trompað þegar samskiptastjóri bæjarins, nýkominn úr viðtali við málgagn Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, ákvað að bærinn skyldi greiða fyrir opnuviðtal við oddvita Sjálfstæðisflokksins í bænum. Þetta var gert án vitundar samstarfsflokksins í bæjarstjórnarmeirihlutanum – og minnihlutaflokkunum var að sjálfsögðu ekki boðið til þessarar veislu oddvitans og samskiptastjórans.

Samfylking fyrir almannahag

Samfylkingin í Hafnarfirði býður kjósendum upp á annan og betri valkost. Í stjórnsýslu bæjarins munum við viðhafa opin, gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð. Við vinnum að almannahagsmunum í stað sérhagsmuna og ástundum heiðarleg vinnubrögð í stað óheiðarlegra vinnubragða og leyndarhyggju. Þetta þýðir t.d. að við munum ekki hygla einum stjórnmálaflokki umfram aðra í aðdraganda kosninga líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerði í yfirstandandi kosningabaráttu – sér í hag. Vilji kjósendur ný og betri vinnubrögð í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þá er Samfylkingin öruggasti og besti kosturinn.

Samfylkingin – eina mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn

Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihlutinn sem betur fer kolfallinn. Sömu skoðanakannanir sýna að Samfylkingin er eina raunverulega mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn. Valkostirnir eru því mjög skýrir; annars vegar Sjálfstæðisflokkurinn og sá flokkur sem hann velur með sér í nýjan meirihluta um framhald á óvönduðum vinnubrögðum – eða öflug Samfylking, sem getur veitt nýjum meirihluta forystu um ný og breytt vinnubrögð. Enginn annar flokkur hefur styrk til að verða kjölfestan í slíkum meirihluta. Sterk Samfylking er því lykilforsenda þess að raunverulegar breytingar eigi sér stað við stjórnun bæjarins.

Árni Rúnar Þorvaldsson
skipar 5. sætið á lista Samfylkingarinnar.

Ummæli

Ummæli