St. Jósefsspítali aftur til vegs og virðingar

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Ágúst Bjarni Garðarsson

Nýlega var Lífsgæðasetur St. Jó. opnað með formlegum hætti. Húsnæði gamla St. Jósefsspítala hefur nú loks fengið nýtt hlutverk og þær endurbætur sem húsnæðið á skilið. Húsnæði sem nú er komið aftur til vegs og virðingar. Ég veit að flest allir Hafnfirðingar hafa einhverja tengingu við þetta fallega hús og þótt dapurlegt að sjá það grotna niður á þeim árum sem liðin eru frá því að starfsemi spítalans var lögð af. Þrátt fyrir miklar endurbætur og flókið verkefni hefur það gengið vel. Bæjarráð setti á fót sérstakan framkvæmdahóp um verkefnið og endurbæturnar sem undirritaður hefur leitt og átt sæti í ásamt Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra, Guðlaugu Kristjánsdóttur bæjarfulltrúa og starfsmönnum bæjarfélagsins. Það er gaman að segja frá því að góð samstaða hefur verið í hópnum og mikill einhugur um þetta mikilvæga verkefni. Það hefur birst í því að allar kostnaðaráætlanir hafa staðist og fjölbreytt starfsemi er nú í húsinu sem er komin til að vera.

Við höfum lagt mikla áherslu á að vernda bæjarbraginn, styrkja og styðja við eldri byggðir ásamt því að efla miðbæinn. Það sjáum við sérstaklega tveimur samþykktum deiliskipulagstillögum; annars vegar stækkun verslunarmiðstöðvarinnar Fjarðar og hins vegar reit sem afmarkast af Strandgötu, Reykjarvíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg. Eitt af einkennum okkar góða bæjarfélags er fjölbreytt byggð eldri og nýrra húsa. Hverfin okkar hér í Hafnarfirði eru jafn misjöfn og þau eru mörg, hvert með sinn sjarma, staðaranda og einkenni. Einkenni sem okkur ber að varðveita. Sérstakt áhugamál mitt var að endurreisa húsverndunarsjóð sem var hér við líði á árum áður. Það var gert í ár og er úthlutað úr sjóðnum samkvæmt tillögu Byggðasafns Hafnarfjarðar. Nýlegar var úthlutað úr sjóðnum og fengu fimm aðilar úthlutað 2 milljónum króna til viðhalds og endurbóta á húsnæði. Þetta er liður í því að viðhalda og varðveita söguna. Húsverndarsjóður er nú kominn til að vera og ég vona að okkur beri gæfa til, þvert á flokka, að styrkja hann enn frekar í framtíðinni.

Nú rísa ný hverfi í Skarðshlíð og Hamranesi, auk þess sem stutt er í að lóðum verði úthlutað í Áslandi 4 og framkvæmdir þar hefjist af sama krafti og er annars staðar í bæjarfélaginu. Þetta eru okkar nýbyggingarsvæði, en samhliða uppbyggingu nýrra hverfa hefur þétting byggðar gegnið vel. Þétting byggðar þarf að haldast í hendur við uppbyggingu nýrra hverfa svo nýta megi þá innviði sem þegar eru til staðar enn betur. Hér getum við nefnt sérstaklega Dvergsreitinn, Hrauntungu, Hjallabraut og Stekkjarberg. Þar sjáum við nú hús rísa þar sem mikill metnaður er lagður í að halda í einkenni þeirra byggða sem umvefja ný hús sem munu styrkja og bæta hverfin í heild. Til viðbótar má nefna að samþykkt hefur verið að auglýsa deiliskipulag Óseyrarhverfis, en þar mun rísa falleg byggð við höfnina sem ýta mun enn frekar undir blómlegt bæjarlíf og fjölbreytta þjónustu. Tilkoma Tækniskólans á Suðurhöfnina mun styðja við samfélagið allt hér í Hafnarfirði og öll önnur verkefni í nágrenni miðbæjarins.

Framtíð Hafnarfjarðar ræðst á miðjunni – XB!

Ágúst Bjarni Garðarsson,
formaður bæjarráðs og formaður framkvæmdahóps St. Jósefsspítala

Ummæli

Ummæli