Ráðist á tekjulága, aldraða og öryrkja

Óskar Steinn Ómarsson skrifar.

Óskar Steinn Jón­ínu­son Ómarsson

Nú stendur yfir vinna við gerð fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðar fyrir næsta ár. Með gjaldskrárhækkanir að vopni ræðst meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á þau sem minnst mega sín: tekjulágt fólk, aldraða og öryrkja.

  • Lagt er til að heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækki um 24% á næsta ári.
  • Lagt er til að akstursþjónusta aldraðra hækki um 100% á næsta ári.
  • Lagt er til að leiga á félags­leg­um íbúðum hækki um 21% á næsta ári.

Svikin loforð

Gjaldskrárhækkanir meirihlutans ganga þvert gegn tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga um að opinber gjöld hækki ekki um meira en 2,5%. Þá eru hækkanirnar í hróplegu ósamræmi við loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar um að „halda áfram að lækka þjónustugjöld“.

Fyrir kosningar lofaði Framsókn að „bæta akstursþjónustu“ og „stórauka heimaþjónustu“ við eldri borgara. Flokk­urinn gleymdi bara að taka fram að fyrst stæði til að hækka þjón­ustugjöldin um 24-100%.

Samfylkingin mótmælir gjaldskrárhækkunum

Á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku lagði Samfylkingin til að fallið yrði frá gjaldskrárhækkunum umfram 2,5%. Samfylkingin lagði einnig til að í stað gjald­skrár­hækkana á tekjulága, aldraða og öryrkja yrði útsvarið frekar fullnýtt til að standa undir þjónustu við þessa hópa. Þá lagði Samfylkingin til hækkun á frístundakorti eldri borgara, ókeypis strætókort fyrir börn og uppbyggingu leikskóla í Öldutúnsskólahverfi. Bæjar­stjórn tekur afstöðu til þessara tillagna á fundi 11. desember.

Jafnaðarmenn vilja byggja upp samfélag sem hlúir vel að þeim sem höllustum fæti standa. Ég trúi því að þorri Hafnfirðinga sé sömu skoðunar og taki því undir mótmæli okkar gegn fyrirhuguðum hækkunum meirihlutans á þjónustu við öryrkja og aldraða og á leigu þeirra sem búa í félagslegum íbúðum.

Óskar Steinn Ómarsson, varaforseti Ungra jafnaðarmanna.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here