Blómlegt starf sem skiptir máli
Félagsmiðstöðin Hraunsel er vettvangur virkni, félagslegrar þátttöku og forvarna gegn einmanaleika. Þar skapast tengsl, sjálfstraust eflist og samfélagið lifnar við á forsendum eldri íbúa. Þjónustan nýtist í raun öllum bænum, því samfélag sem styður vel við elstu borgara sína stendur traust. Alls sækja 590–700 manns afþreyingu vikulega og félagsmenn eru um 2400 talsins.
Óvissan er óásættanleg
Í Hafnarfirði ríkir nú mikil óvissa um framtíð húsnæðis Félags eldri borgara eftir að Verkalýðsfélagið Hlíf, eigandi húsnæðisins, sagði upp leigusamningi. Formleg uppsögn barst þó ekki fyrr en 10. september, sem skapað hefur mikla óvissu meðal félagsmanna. Við óformleg samtöl milli bæjarins og Hlífar um þá stöðu sem mögulega gæti komið upp ef til uppsagnar kæmi fór af stað vinna við að kanna aðra húsnæðiskosti. Sú vinna var sett af stað til að lágmarka óþægindi og finna lausnir ef til uppsagnar á húsnæðinu kæmi sem var þó einn óvissa um á þeim tímapunkti.
Starfsemi félagsins skiptir marga félagsmenn miklu máli og því vekur ákvörðun Hlífar áhyggjur. Á félagsfundi 4. september kom fram gagnrýni og spurningar um forsendur málsins. Margir telja að níu starfsmenn Hlífar þurfi ekki 600 fermetra húsnæði og að unnt sé að samnýta salinn eða nýta aðrar hæðir hússins. Tillaga eldri borgara um slíka samnýtingu sýnir lausnamiðaða nálgun og vilja þeirra til að vera áfram í húsnæðinu.
Hlíf hefur nýlega stækkað við sig á Reykjavíkurvegi, auk þess sem félagið hafði áður heila hæð til umráða. Því vakna spurningar um hvort félagsmenn hafi fengið að fjalla um eða samþykkja þessa ákvörðun.
Áskorun til Hlífar
Meirihluti bæjarstjórnar hefur hvatt Hlíf til að endurskoða uppsögnina og lagt til að Félag eldri borgara fái að vera áfram í húsnæðinu út starfsárið. Þannig yrði hægt að tryggja að starfsemin raskist ekki eftir rúmlega aldarfjórðungs farsælt starf á Flatahrauni og skapa þannig svigrúm til að finna varanlega lausn.
Á fundi bæjarstjórnar 10. september var samþykkt að fela bæjarstjóra að undirbúa skipan sameiginlegs starfshóps í samstarfi við stjórn FEBH, í samræmi við ályktun félagsfundar.
Óvissa af þessu tagi veldur eðlilega vanlíðan meðal eldri borgara. Hagsmunir þessa hóps eiga að vera í forgangi og nauðsynlegt er að tryggja áframhaldandi starfsemi félagsins, sem gegnir lykilhlutverki í lífi fjölmargra íbúa Hafnarfjarðar.
Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði
Margrét Vala Marteinsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði