..og óháðir

Arnbjörn Ólafsson

Um þessar mundir eru framboð til sveitarstjórnarkosninga 2022 kynnt almenningi í fjölmiðlum landsins. Venju samkvæmt bjóða rótgrónu flokkarnir úr landspólitíkinni sig fram í flestum sveitarfélögum, en það sem vekur athygli mína í aðdraganda þessara kosninga er hversu margir óháðir aðilar virðast ætla að vera háðir öðrum flokkum á komandi kjörtímabili.

Óháðir virðast reyndar vera eitt vinsælasta framboðið í ár og bjóða fram í fjölmörgum sveitarfélögum. Þú getur kosið Vinstri-græna og óháða, Framsókn og óháða, Miðflokkinn og óháða, Samfylkinguna og óháða, Sjálfstæðismenn og óháða. Þar fyrir utan má finna framboð eins og Framsókn og aðra framfarasinna, Framsókn og frjálsa, Framsókn og félagshyggju, Hagsmunafélag náttúruunnenda og stjóriðju, Auða og ógilda, Framboð einræðisherra og lýðræðissinna, Hreyfingu jórturdýra og rándýra i sauðagærum, og svo má lengi telja. Ok. Sum þessara framboða eru kannski ekki að bjóða sig fram núna í vor … allavega ekki undir þessum heitum.

En það sem ég vil staldra við er þessi ákvörðun óháðra að bjóða sig fram með flokkum sem eru svo sannarlega öðrum háðir. Með því að bjóða þig fram í samfloti við einn af rótgrónu stjórnmálaflokkunum, ertu nefninlega ekki óháður. Þú ert ekki að fara að beygja grundvallar hugmyndafræði þessara flokka eftir þínum hugsjónum og þeir munu ekki aðlaga sína stefnu eftir sannfæringu utanaðkomandi aðila. Þegar þú kýst eitt af þessum framboðum ertu þannig alltaf á endanum að setja x við listabókstaf stjórnmálaafls sem hefur stefnu og hagsmuni sem ná langt út fyrir sveitarfélagið þitt.

Það er nefninlega raunin að einu alvöru óháðu hreyfingarnar sem bjóða sig fram, eru þær sem hafa ekki stjórnmálaflokk á undan sér í heiti framboðsins. Reyndar eru einu alvöru óháðu framboðin þau sem hafa hvorki stjórnmálaflokk í nafninu sínu, né flokksbundið fólk í oddvitasætum eða alþingismenn í heiðurssætum.

Það er mikilvægt að standa vörð við alvöru óháð framboð í sveitarstjórnarkosningunum. Þau ganga ekki erinda flokksgæðinga, fara ekki eftir stefnu landsfunda og taka ekki mið af ákvörðunum systurflokka í nágrannasveitarfélögum. Þetta eru framboð sem hafa engöngu hag íbúa að leiðarljósi. Ekkert að spá í hvað öðrum finnst. Ekkert að passa uppá að styggja ekki „flokkinn“.

Setjum x við alvöru óháð framboð á laugardaginn og við listabókstaf sem er ekki táknmynd stjórnmálaafls. Það er nefninlega ekki best að kjósa bara einhvern stjórnmálaflokk, það er best að kjósa óháð framboð.

Kjósum xL í Hafnarfirði. Bæjarlistinn … bara fyrir Hafnarfjörð.

Arnbjörn Ólafsson,
er óháður Hafnfirðingur og skipar 5. sæti á lista Bæjarlistans í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli