fbpx
Mánudagur, maí 20, 2024
HeimFréttirPólitíkMenntamál eru heilbrigðismál

Menntamál eru heilbrigðismál

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Góð kona spurði mig hvers vegna ég talaði ekki heldur um heilbrigðismál þegar ég var eitthvað að fjalla um nauðsyn á öflugu menntakerfi. Það var mál sem henni var hugleikið, eins og okkur öllum sem eigum svo mikið undir því. Mér vafðist tunga um tönn og fann ekki rétta svarið sem væri auðvitað: „Ég er að tala um heilbrigðismál“.

Menntun getur verið með ýmsu móti: fór hér áður ekki síst frá manni til manns þegar handverk voru sýnd og kennd, en nú er það breytt að mestu.  Góð menntun, staðgóð þekking, skilar okkur heilbrigðari einstaklingum en ella og þar með heilbrigðara samfélagi. Þetta snýst ekki bara um kaup og kjör heldur líka lífsfyllingu.

Grunnurinn er menntun

Heilbrigðismál og menntamál eru málaflokkar sem varða hverja einustu fjölskyldu í landinu. Séu menntamálin í ólagi bitnar það á öllu hinu en þróttmikið og heilbrigt skólastarf smitar út frá sér og gefur okkur bæði kraft og þekkingu til að takast á við ótrúlega flókin úrlausnarefni sem bíða okkar sem einstaklinga og þjóðfélags. En þetta snýst ekki bara um framtíðina: Við verðum að vita hvaðan við komum; við verðum að kunna að greina nútímann og vera óhrædd við að beita þekkingunni við að finna sanngjarnar og snjallar lausnir á alls konar flækjum – og svo þurfum við að kunna að smíða öll þau furðutól sem bíða í framtíðinni og við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur hvernig líta út.

Ánægðir kennarar

Grunnurinn að þessu öllu liggur í menntun. Og lykillinn að heilbrigðu og góðu menntakerfi eru ánægðir kennarar sem geta einbeitt sér að því að vekja, glæða, styrkja og rækta   – og skynja að þeir njóta trausts í starfi sínu. Samfylkingin boðar stórsókn í þessum málum eins og nýleg þingsályktunartillaga þingmanna flokksins um viðbrögð við nýrri tæknibyltingu sýnir. Það er ekki eftir neinu að bíða: Framtíðin er hafin.

Guðmundur Andri Thorsson
oddviti Samfylkingarinnar í SV kjördæmi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2