fbpx
Laugardagur, febrúar 24, 2024
HeimUmræðanKaldar kveðjur meirihlutans til starfsfólks og nemenda Flensborgar

Kaldar kveðjur meirihlutans til starfsfólks og nemenda Flensborgar

Árni Rúnar Þorvaldsson skriar

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks vill ekki að bæjarráð fundi með fulltrúum Flensborgarskóla. Þetta varð ljóst á bæjarstjórnarfundi í gær þegar meirihlutinn vísaði frá tillögu Samfylkingarinnar um að bæjarráð fundi með fulltrúum Flensborgarskóla vegna áforma menntamálaráðherra um sameiningu Flensborgar og Tækniskólans. Átakanlegt var að verða vitni að áhuga- og metnaðarleysi fulltrúa meirihlutaflokkanna. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar styðja flutning Tækniskólans í Hafnarfjörð en það má ekki gerast á kostnað Flensborgarskólans og framtíðar hans.

Hlustum á raddir skólasamfélagsins

Efling iðn- og verknáms er mikilvæg. Nýr Tækniskóli í nútímalegu húsnæði í Hafnarfirði sem er sniðið að þörfum skólans væri veigamikill þáttur í eflingu iðn- og verknáms. Þess vegna er dapurt að málið hafi verið sett í uppnám með því að tengja sameiningu Flensborgar og Tækniskólans við það. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja áherslu á að sameining skólanna eigi ekki að vera forsenda flutnings Tækniskólans í Hafnarfjörð en markvisst og öflugt samstarf skólanna er af hinu góða og ber að stefna að því. Bæði skólanefnd Flensborgarskóla og starfsfólk skólans hafa tjáð sig um málið með formlegum hætti og mótmælt áformum og vinnubrögðum ráðuneytisins í því. Á þessar raddir skólasamfélagsins ber að hlusta og bæjarstjórn á að hafa frumkvæði að því.

Meirihlutinn gerir bæjarstjórn að viljalausu verkfæri ráðherra og ríkisstjórnar

Viðbrögð meirihlutans við tillögu Samfylkingarinnar endurspegla áhugaleysi hans á málinu. Ein vörn sem fulltrúar meirihlutans gripu til var að umræðan um málið væri á villigötum. Því vekur það enn meiri furðu að meirihlutinn hafi ekki viljað funda með fulltrúum skólans í bæjarráði svo hægt væri að koma umræðunni af meintum villugötum. Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks virðast líta svo á að bæjarstjórn eigi að vera viljalaust verkfæri ráðherra og ríkisstjórnar í þessu stóra hagsmunamála bæjarins. Hlutverk bæjarstjórnar sé bara að bíða þæg og blíð eftir ákvörðunum ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Jafnaðarfólk í bæjarstjórn Hafnarfjarðar deilir ekki þeirri sýn flokkanna í meirihluta.

Sameining verði ekki skilyrði fyrir flutningi Tækniskólans í Hafnarfjörð 

Jafnaðarfólk í bæjarstjórn mun áfram vinna af fullum heilindum að flutningi Tækniskólans til Hafnarfjarðar, hér eftir sem hingað til. Við munum hins vegar ekki fallast á að ríkisstjórnin geri það að skilyrði fyrir flutningnum að Flensborgarskólinn sameinist Tækniskólanum og að húsnæði Flensborgar á Hamrinum verði fundið nýtt hlutverk eins og sagt er í skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarhúsnæði Tækniskólans. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar styðja flutning Tækniskólans til Hafnarfjarðar en það má ekki vera á kostnað Flensborgarskólans og framtíðar hans. Það er grundvallaratriði.

Árni Rúnar Þorvaldsson

bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2