fbpx
Mánudagur, október 7, 2024
HeimUmræðanInnviðauppbygging fyrir rafbíla

Innviðauppbygging fyrir rafbíla

Haraldur R. Ingvason og Leifur Eysteinn Kristjánsson skrifa

Nýskráðir bílar á árinu eru um 4.000 á Íslandi og þar af eru 37% rafbílar. Því er ljóst að rafbílavæðing er komin á fullan skrið. Tengitvinnbílar eru svo um 27% og því þarf allt að 64% nýinnfluttra bíla á hleðslustöðvum að halda.

Heimahleðslustöðvar eru besti kosturinn, en eru eðlilega algengastar í sérbýlum eða þar sem bílskúrar tilheyra íbúðum í fjölbýli. Það er hins vegar ljóst að rafbílaeign í venjulegum fjölbýlum fer stórvaxandi auk þess sem ferðafólk á rafbílum þarf að komast að hleðslustöðvum.

Fjölgun rafbíla kallar því á innviðauppbyggingu í formi hleðslustöðva sem þjóna almenningi ásamt átaki í uppsetningu hleðslustöðva við fjölbýli. Þar er Hafnarfjörður engin undantekning.

Brýn þörf er á hvötum til verslana, fyrirtækja og veitingastaða um að setja upp eða fjölga hleðslustöðvum fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Slík fyrirtæki sýna í verki umhverfislega og samfélagslega ábyrgð og auðvelda t.d. líf ferðafólks, sem og þeirra rafbílaeigenda sem eiga ekki kost á heimahleðslu. Samhliða þyrftu stofnanir og samkomustaðir í Hafnarfirði að setja upp hleðslustöðvar, þannig að hægt sé að stinga í samband meðan skotist er á fund eða í sund.

Stóra skrefið væri svo stigið með markvissri aðstoð við eigendur fjölbýlishúsa. Hvatinn hjá íbúum er þegar til staðar en þörf er á aðstoð hvað varðar upplýsingar um lög, reglur og styrki til uppsetningar hleðslustöðva. Þá þarf að liggja fyrir hve marga bíla er hægt að hlaða og hve hratt miðað við getu heimtauga, og í framhaldinu finna hagkvæmustu lausnina á hverjum stað fyrir sig. Ef til vill væri markvissast að þessi vinna væri á hendi sérhæfðs starfshóps á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Tæpast er raunhæft að breyta öllum heimastæðum í hleðslustæði, en slík hleðsla er þó alltaf besti kosturinn og ber að hafa sérstaklega í huga þar sem um er að ræða nýbyggingar og deiliskipulag byggðar.

Haraldur R. Ingvason,
oddviti Pírata í Hafnarfirði

Leifur Eysteinn Kristjánsson,
frambjóðandi í 7. sæti fyrir Pírata Í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2