Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur brugðist eldri borgurum í Hafnarfirði vegna húsnæðismála Félags eldri borgara í Hafnarfirði, FEBH. Það kom berlega í ljós í umræðum um málið á síðasta bæjarstjórnarfundi. Átakanlegt var að hlýða á málflutning fulltrúa meirihlutans í málinu og augljóst að hann hafði vondan málstað að verja.
Þörf á alvöru viðbrögðum í stað hringlanda
Málflutningur meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á fundinum var sorglegur vegna þess að hér er um stórmál að ræða. Húsaleigusamningi fyrir það húsnæði sem hýst hefur starfsemi FEBH hefur verið sagt upp og það kallar á fumlaus og kröftug viðbrögð bæjarfélagsins. Sú öfluga og mikilvæga starfsemi sem stjórn FEBH hefur unnið að, þar sem félagsmönnum er boðið upp á fjölbreytta dagskrá, verðskuldar ekki þann hringlanda og þau lausatök sem einkennt hafa vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.
Aðgerðaleysi í heilt í ár
Fyrir liggur að leigusalinn, Verkalýðsfélagið Hlíf, lét fulltrúa bæjarins vita af uppsögn húsaleigusamningsins haustið 2024, eða fyrir ári síðan. Fulltrúar verkalýðsfélagsins ræddu málið síðan á fundum með bæjarstjóra í janúar og maí á þessu ári. Viðbrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks voru, eins og í svo mörgum málum, tilviljanakennd og endurspegla erindisleysi þessa verk- og stefnulausa meirihluta. Heilt ár leið án þess að meirihlutinn gerði nokkuð. Í byrjun júlí sl. sendi stjórn FEBH bæjarstjóra, fyrir hönd bæjarráðs, bréf þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð bæjarins. Í því kemur fram að félagið hafi verið upplýst um uppsögn leigusamningsins 25. júní sl., eða einum tíu mánuðum eftir að forsvarsfólk Hlífar upplýsti bæinn um ákvörðun félagsins. Ekki bera fulltrúar meirihlutans meiri virðingu en svo fyrir lýðræðinu að bréfinu var haldið frá minnihluta bæjarstjórnar. Það var ekki fyrr en fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarráði kröfðust þess að bréfið yrði lagt fram að það var gert á síðasta bæjarstjórnarfundi, eða tveimur mánuðum eftir það hafði verið sent til bæjarins. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem lýsa fullkominni uppgjöf, flótta frá brýnum verkefnum og stjórnsýslu í molum.
Bærinn vanrækir samskiptin við stjórn FEBH
Stjórn FEBH gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð bæjarins og að bærinn hafi ekki upplýst stjórn félagsins um þessa ákvörðun leigusala fyrr. Það er bærinn sem er með leigusamning við Verkalýðsfélagið Hlíf um húsnæðið á Flatahrauni sem FEBH nýtir undir starfsemi sína. Það er því algjörlega kýrskýrt að það var hlutverk bæjarstjóra og bæjarins að upplýsa stjórn FEBH um ákvörðun Hlífar. Einnig hefði átt að upplýsa bæjarstjórn þegar í stað og setja málið strax í það ferli sem nú hefur verið að gert, þ.e. að setja á fót samráðshóp bæjarins og félags eldri borgara til þess að leita lausna, bæði til skemmri tíma og lengri tíma. En vegna ákvörðunarfælni og verkkvíða meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks var það ekki gert og heilt ár af aðgerðaleysi látið líða.
Dylgjur um pólitíska leiki
Þessi framkoma bæjarstjóra og meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gagnvart félagi eldri borgara í bænum er fyrir neðan allar hellur og á síðasta fundi bæjarstjórnar var flótti bæjarfulltrúa meirihlutans frá sínu eigin klúðri ævintýralegur. Til þess að breiða yfir eigin
vanhæfni var allri skuld skellt á Verkalýðsfélagið Hlíf, stjórn þess og forsvarsmenn. Og meirihlutinn beit svo höfuðið af skömminni með því að dylgja um að hér væri á ferðinni pólitískur leikur af hálfu Samfylkingarinnar og Verkalýðsfélagsins Hlífar til þess að koma bæjaryfirvöldum í erfiða stöðu. Eitt er að dylgja með þessum hætti um aðra bæjarfulltrúa en að láta slík orð falla um félög og fólk utan bæjarstjórnar, eins og fulltrúar meirihlutans gerðu um Verkalýðsfélagið Hlíf og stjórnendur þess, er ekki sæmandi kjörnum fulltrúum sem vilja láta taka sig alvarlega. Þó bæjarfulltrúar meirihlutans hafi vondan málstað að verja þá er ekki hægt að leyfa sér hvað sem er til að rugla umræðuna. Og meirihluti sem talar með þessum hætti hefur að sjálfsögðu misst allt erindi og umboð til þess að stýra bænum.
Gátu ekki samþykkti tillögu Samfylkingarinnar
Rúsínan í pylsuendanum var svo að til þess að þurfa ekki að samþykkja tillögu Samfylkingarinnar um samráðshóp bæjarins og eldri borgara, sem lá fyrir síðasta bæjarstjórnarfundi, þá lagði meirihlutinn fram nánast efnislega samhljóða tillögu á fundinum. Af því að fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks geta ekki samþykkt tillögu sem kemur frá Samfylkingunni. Þannig er þeirra pólitík en Samfylkingin samþykkti að sjálfsögðu tillögu meirihlutans til þess að koma hreyfingu á málið og mun halda áfram að vinna að lausn þess til framtíðar.
Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er stefnulaust rekald
Alvarleg og snúin staða í húsnæðismálum Félags eldri borgara í Hafnarfirði er fullkomlega á ábyrgð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Í þessu máli, eins og mörgum öðrum, blasir við okkur meirihluti sem er stefnulaust rekald, án erindis og ræður ekki við að stýra stjórnsýslu bæjarins. Þetta er alvarleg staða og bæjarbúar eiga betra skilið.
Árni Rúnar Þorvaldsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði