fbpx
Þriðjudagur, mars 5, 2024
HeimUmræðanHúsnæðismál fatlaðs fólks

Húsnæðismál fatlaðs fólks

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir. Á undanförnum árum hefur húsnæðisuppbygging í Hafnarfirði verið hæg. Það endurspeglast í löngum bið­listum eftir félagslegum íbúð­um og fatlað fólk hefur fundið fyrir því. Í svari við fyrirspurn Samfylkingarinnar um stöðu húsnæðismála fatlaðs fólks í ágúst sl. kom fram að 56 ein­staklingar væru á biðlista. Þar af voru 28 í brýnni þörf. Einn­ig kom fram að meðal­biðtími væri 6 ár. Á bak við þennan hóp eru fjölskyldur og aðstandendur sem hafa beðið of lengi í óvissu um úrræði fyrir sína nánustu.

Á fundi bæjarstjórnar í byrjun sept­em­ber var samþykkt tillaga Sam­fylk­ingarinnar um að fjölskylduráði yrði falið að leggja til leiðir til að vinna bug á vand­anum. Í kjölfarið hefur ágæt vinna farið fram í fjölskylduráði. Samn­ingar voru gerðir um uppbyggingu búsetu­kjarna á Arnarhrauni og upp­bygging íbúðakjarna við Öldugötu boð­in út. Fyrir áramót var svo sam­­þykktur samningur við félagið Vinabæ um upp­byggi­ngu og rekstur íbúðakjarna á Völlunum. Þar er um að ræða samning við félag sem for­eldrar stofnuðu um byggingu og rekstur íbúðakjarna. Þess­um áfanga – og öðrum – ber að fagna þótt ferlið hafi tekið of langan tíma hjá bæjaryfir­völdum.

Næstu skref – samráð við notendur

Mikilvægt er að láta ekki staðar numið nú. Næsta skref ætti að fela í sér kortlagningu á núverandi stöðu og mat á því hvaða aðgerða er þörf. Í slíkri vinnu er ný nálgun mikilvæg og í skipulags – og byggingarráði bókaði fulltrúi Samfylkingarinnar um mikil­vægi þess að ákveðið hlutfall húsnæðis í nýjum hverfum sé hannað með hliðsjón af þörfum fatlaðs fólks og hjólastólaaðgengi. Samráð við notendur er mikilvæg forsenda þess að vel takist til enda er það eitt af markmiðum ný­samþykktrar húsnæðisáætlunar Hafn­ar­fjarðar 2018-2026 að farið verði í heildstæða stefnumótun í samráði við notendur um framtíðarfyrirkomulag búsetumála fatlaðs fólks. Sú vinna þarf að fara sem fyrst af stað.

Stefna bæjarfélagsins á að stuðla að sjálfstæðri búsetu með fjölbreyttri þjónustu enda er það mikilvægur liður í því að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra.

Árni Rúnar Þorvaldsson
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, bæjarblaði Hafnfirðinga 24. janúar 2019

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2