fbpx
Þriðjudagur, október 15, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanGróska, vellíðan og framsýni vandséð

Gróska, vellíðan og framsýni vandséð

Örstutt um málefnasamning meirihlutans

Málefnasamningur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins var kynntur í vikunni. Þar koma fram helstu verkefni meirihlutans í bæjarstjórn á nýju kjörtímabili undir yfirskriftinni „Gróska, vellíðan, framsýni“. Furðu vekur að hvergi er minnst á umhverfis- og náttúruvernd eða  loftslagsmálin í samningnum – stærstu áskorun mannkyns, rétt eins og þau komi bænum ekki við.

Loftslagsbreytingar eru helsta ógn við líf á jörðinni. Um það er ekki deilt og þjóðir heims hafa tekið sig saman um aðgerðir til stemma stigum við hlýnandi loftslagi. Ísland er engin undantekning á því og loftslagsmálin eitt helsta áherslumál stjórnvalda hér. Þar gegna sveitarfélögin lykilhlutverki sem landeigendur, landnotendur og þjónustuaðilar við íbúa, og skuldbundið sig sem slík til aðgerða. Einnig Hafnarfjarðarbær.

Náttúruvernd, vernd- og endurheimt raskaðra vistkerfa með landgræðslu, skógrækt og sjálfbærri landnýting er megin áhersla í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Markmiðið er að draga úr kolefnislosun frá landi og binda kolefni í landi, og einn daginn að ná kolefnishlutleysi á Íslandi. Jafnframt minnka sóun auðlinda og verðmæta með skilvirku hringrásarhagkerfi. En það er ekki að sjá að bærinn rói í sömu átt og íslensk stjórnvöld í þeim efnum næstu árin, þvert á móti.

Málefnasamningnum til varnar er stefnt að því að efla vistvænar samgöngur (að vísu undir lið sem fjallar íþróttir og tómstundir) og að áfram verði unnið að samkvæmt hjólreiðaáætlun bæjarins (sem reyndar er ekki til). Jafnframt að setja upp rafhleðslustöðvar við stofnanir bæjarins en þar með er það eiginlega upptalið.

Í stað náttúruverndar og sjálfbærrar landnýtingar er í málefnasamningnum stefnt að því að taka upp aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að brjóta nýtt land til að tryggja lóðaframboð. Og í stað þess að leggja áherslu á græna innviðauppbyggingu í samgöngum er aðaláherslan á bíla og umferðarmannvirki. Með þessu móti er bærinn að pissa í skóinn sinn.

Frekari útþensla byggðarinnar er ekki aðeins ósjálfbær heldur einnig frek á innviði og kostnaðarsöm í rekstri. Nær væri að virða aðalskipulagið sem er samkomulag sveitarfélaganna um að vinna saman að byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu, samþykkt af þeim öllum. Enn fremur væri nær að leggja áherslu á bættar almenningssamgöngur og að setja göngu og hjólastíga í flokk með samgöngum. Það er komin tími til að veita umhverfisvænni og kostnaðarminni samgöngum vægi til jafns við bíla í samgöngumynstrinu.

Hvað varðar hringrásarhagkerfið og sorpmálin – endurnýtingu og endurvinnslu og förgun, þá koma þau ekki fyrir í málefnasamningnum. Raunar virðast umhverfismálin ekki á dagskrá nema að áfram verði unnið að fegrun umhverfis og viðhaldi gatna og eigna bæjarins. Jú, og fegrun Hellisgerðis í tilefni af 100 ára afmæli þess. Gott og sjálfsagt en heldur léttvægt innlegg í málaflokk er varðar framtíð mannkyns.

Við núlifandi Hafnfirðingar höfum skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum líkt og aðrir jarðarbúar að taka ábyrgð á umhverfi okkar þótt þess sjái vart merki í málefnasamningnum.  Gróska, vellíðan og framsýni er vandséð í Hafnarfirði takist ekki hægja á hlýnun jarðar.

Davíð Arnar Stefánsson
sérfræðingur á sviði loftslags og sjálfbærrar landnýtingar hjá Landgræðslunni.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2