fbpx
Þriðjudagur, júní 25, 2024
HeimFréttirPólitíkÍ góðæri má ekki gleyma ...

Í góðæri má ekki gleyma …

Adda María Magnúsdóttir bæjarfulltrúi skrifar

Á Íslandi ríkir góðæri. Þá viljum við gjarnan fara að gera og græja. Við leið­um hjá okkur varnaðarorð og fjárfestum jafnvel um efni fram. Innst inni vitum við þó að skjótt geta veður skipast í lofti og viðbúið að það sígi á ógæfuhliðina ef ekki er haldið skynsamlega á málum. Þetta á við bæjarfélög rétt eins og heimili.

Mínus eða plús

Nú er bókhald Hafnar­fjarðar­­bæjar í plús. Það var líka í plús árið 2016 en árið 2015 var stór mínus. Ástæðan er ekki svo einföld að bærinn hafi verið verr rekinn árið 2015 en 2016, heldur voru það ytri aðstæður sem þar réðu mestu. Það eitt hvort ytri efnahags­aðstæður eru hagfelldar eða óhagfelldar getur haft mikil áhrif á rekstur bæjar­félags rétt eins og heimila.

Og þegar bókhaldið er í plús er farið að gera og græja. Enda víða tímabært. Niðurskurður á fyrri hluta kjörtíma­bilsins setti mark sitt á viðhald eigna bæjarins, framkvæmdir, aðstöðu og framlög til skólamála, svo eitthvað sé nefnt.

En bókhaldið er ekki bara í plús heldur eru líka kosningar framundan. Mörgu af því sem verið er að gera og græja má líkja við skjót­feng­inn gróða. Verkefni sem hægt er að klára á stuttum tíma, eru íbúunum sýnileg og líkleg til vinsælda. Margt góð og gild verkefni, en ef horft er til heildarhagsmuna bæjarbúa hefði annað mátt ganga fyrir.

Skortur á fyrirhyggju og ráðdeild

Ég sakna þess til dæmis að í góðæri hafi dregist svo mikið sem raun ber vitni að hefja uppbyggingu í Skarðshlíð. Samkvæmt upplýsingum á vef Hag­stofu Íslands hefur íbúafjölgun í Hafnarfirði verið hægari en í nágranna­sveitarfélögunum þrátt fyrir að hér hafi verið tilbúnar lóðir í um áratug. Upp­byggingin hefur farið mjög hægt af stað og áhyggjuefni hve mörgum lóðum hefur verið skilað.

Bygging nýs hjúkrunarheimilis hefur dregist fram úr hófi þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar ákváðu að stöðva framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Völlum og byrja frá grunni á öðrum stað.

Það er líka illskiljanlegt hvers vegna leik­­skólum og leikskóladeildum var lok­­að á þessu kjörtímabili frekar en nýta tæki­færið til að lækka inntökualdur í leik­skólum niður í 12 mánuði, eins og bæjar­félög hafa verið að gera í auknum mæli.

Þá vil ég einnig nefna að Hafnar­fjörð­ur var fyrsta sveitarfélagið til að innleiða frístundastyrki. Þeir hafa hækk­­­að lítillega en engan veginn í takt við upphaflegar áætlanir og ég sakna þess að ekki hafi verið vilji til að taka myndarlegar á málum þar.
Þetta eru einungis örfá verkefni af þeim sem hefði mátt huga betur að á kjörtímabilinu. Í góðæri má nefnilega ekki gleyma sér í gleðinni – þó hún sé mikilvæg. Það þarf að sýna fyrirhyggju og ráðdeild til lengri tíma og huga að heildarhagsmunum íbúanna.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum – vikublaði 11. janúar 2018.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2