fbpx
Laugardagur, júlí 13, 2024
HeimUmræðanEr ekki bara best.. að eldast í Hafnarfirði? Jú en við getum...

Er ekki bara best.. að eldast í Hafnarfirði? Jú en við getum alltaf gert betur

Allir vilja eldast með reisn og fá tækifæri til að viðhalda hamingjusömu og gleðilegu lífi til æviloka en hvernig eigum við að framkvæma það ?  Íbúar Hafnarfjarðar nálgast nú óðfluga að verða um þrjátíu þúsund. Í dag eru um 4000 einstaklingar 65 ára og eldri sem eru skráðir íbúar Hafnarfjarðar og skv. nýjustu spám mun hlutfall eldri borgara hækka talsvert fram til ársins 2040.

Félagsstarf eldri borgara í Hafnarfirði er blómlegt og hafa eldri borgarar annarra sveitarfélaga horft öfundaraugum til okkar. Það er samt alltaf hægt að gera betur og eitt af því sem við í Framsókn erum að tala fyrir er að auka framboð á húsnæði  fyrir félagsstarf eldri borgara og eða vera með betri nýtingu á húsnæði í eigu bæjarins í þágu eldri borgara eins og t.d. skólahúsnæði. Félagsleg virkni er mikilvæg fyrir alla og ekki síst eldri borgara því það er fátt sem flýtir jafn mikið fyrir öldrun og félagsleg einangrun. Að nýta húsnæði bæjarins í námskeið eins og t.d. handavinnu, tónlist og matargerð eflir félagslega virkni og kveður niður þá mýtu að fólk hætti að geta lært nýja hluti þegar það eldist.

Þegar við eldumst er nauðsynlegt að hreyfa sig og þá sérstaklega eftir að fólk hættir að vinna og fer á eftirlaun. Framsókn leggur áherslu á að hækka frístundastyrki til eldri borgara og efla þannig enn heilsueflingu þeirra. Hreyfiþörf eldri borgara er mætt á ýmsan hátt í Hafnarfirði. Boðið er m.a. upp á dans, Janusarverkefnið, sund og aðstöðu til að ganga inni sem og verkefnið „Brúkum bekki“ sem er til fyrirmyndar í bæjarfélaginu. Framsókn í Hafnarfirði vill auka aðgengi eldri borgara að íþróttastarfi og íþróttaaðstöðu og er þá m.a. horft til þeirra íþróttahúsa sem eru ekki í notkun við skólana.

Sá einstaklingur sem eldist með reisn veit að aldur er einungis tala á blaði. Það er hægt að njóta þeirrar reynslu sem árin hafa fært okkur en til þess að svo megi verða þurfum við að gera betur og það er það sem við í Framsókn ætlum að gera.

Jóhanna Erla Guðjónsdóttir félagsráðgjafi, 4. sæti á lista Framsóknar
Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, 6. sæti á lista Framsóknar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2