fbpx
Miðvikudagur, apríl 24, 2024
HeimUmræðanÉg er ánægður Hafnfirðingur, þrátt fyrir allt

Ég er ánægður Hafnfirðingur, þrátt fyrir allt

Arnbjörn Ólafsson skrifar

Líkt og 90% Hafnfirðinga er ánægður með bæinn minn og ég vil hvergi annars staðar búa en í Hafnarfirði. Þýðir það að það sé allt frábært í Hafnarfirði? Svo sannarlega ekki. Hér má ýmislegt bæta og breyta, meðal annars sem snýr að atvinnumálum og tækifærum til atvinnu- og þjónustustarfsemi í bænum.

Hér þarf að auka húsnæðisframboð fyrir rekstur og þjónustu

Sár vöntun er á húsnæði fyrir atvinnu- og þjónustustarfsemi í öllum hverfum Hafnarfjarðar, sér í lagi í miðbænum. Á sama tíma og tveir stærstu flokkarnir í Hafnarfirði eru með félagsheimili sín á Norðurbakkanum og við Strandgötuna – þarf að snúa áhugasömum atvinnurekendum frá þar sem ekkert laust húsnæði er fyrir rekstur eða þjónustu í miðbænum.

Bæjarlistinn vill markvisst auka húsnæðisframboð og aðstöðu fyrir margþætt atvinnulíf og þjónustu í öllum hverfum bæjarins.

Hér þarf að bæta utanumhald og þjónustu við atvinnulífið

Eina raunverulega utanumhald fyrir fyrirtæki í Hafnarfirði hefur undanfarin ár verið í höndum Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Hlutverk stofunnar hefur verið að efla samstarf atvinnulífs bæjarfélagsins og annarra sem vilja stuðla að uppbyggingu innan bæjarins í þeim tilgangi að bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu eða atvinnustarfsemi á svæðinu. Aðildarfélögum í Markaðsstofunni hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum misserum og hefur áhugi bæði aðila bæði innan og utan Hafnarfjarðar á atvinnustarfsemi í bænum sjaldan verið meiri.

Á sama tíma og aukin ásókn hefur verið í aðstoð og utanumhald fyrir atvinnulíf og þjónustu í Hafnarfirði, hefur núverandi meirihluti skorið niður framlög til Markaðsstofunnar og stytt samningstíma hennar. Nú er svo komið að framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar er einungis í hálfu starfshlutfalli (Markaðsstofa Kópavogs hefur til að mynda tvo starfsmenn).

Bæjarlistinn er eina framboðið í Hafnarfirði sem vill efla Markaðsstofu Hafnarfjarðar til að auka og styðja við uppbyggingu atvinnu og þjónustu á svæðinu.

Hér þarf að bæta nýsköpunar- og frumkvöðlastarf

Í nágrannasveitarfélögum má finna atvinnuþróunarfélög, frumkvöðlasetur, og atvinnu- og nýsköpunarsetur. Ekkert slíkt má finna í þessu þriðja stærsta sveitarfélagi landsins. Í stjórnartíð fráfarandi meirihluta var Kveikjunni – frumkvöðlasetri Hafnarfjarðar lokað. Þar störfuðu á annan tug sprotafyrirtækja og fengu þar bæði aðstöðu sem og faglegan stuðning og ráðgjöf. Mikilvægt er að hér rísi á ný aðstaða fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarf, en með því má fjölga sprotafyrirtækjum og störfum í bæjarfélaginu.

Í Hafnarfirði þarf að vera til vettvangur fyrir fólk sem vill hrinda hugmyndum til atvinnusköpunar í framkvæmd sem og að hér sé aðstaða fyrir samveru, hugmyndaauðgi og þróun nýrra atvinnutækifæra. Þá er mikilvægt að hlúð verði sérstaklega að smærri fyrirtækjum og einyrkjum í bænum.

Bæjarlistinn vill beita sér fyrir að hér rísi á ný öflugt nýsköpunar- og frumkvöðlasetur í nánu samstarfi við atvinnulífið.

Ég er samt ánægður með bæinn minn

Bæjarlistinn í Hafnarfirði er óflokksbundið og óháð framboð sem hefur eingöngu hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Við viljum auka framboð á atvinnuhúsnæði og styðja fyrirtæki, frumkvöðla og einyrkja til að stunda atvinnurekstur og þjónustu í þessu besta bæjarfélagi landsins (samkvæmt níu af hverjum tíu Hafnfirðingum).

Ég set x við L og kýs Bæjarlistann í Hafnarfirði á morgun, því ég hef trú á því að við getum saman stuðlað að öflugra og enn fjölbreyttara atvinnulífi í bænum.

Ég hvet ykkur til að kjósa á morgun og væri þakklátur fyrir ykkar stuðning. Umfram allt er ég þó þakklátur Hafnfirðingur. Því það að vera ánægður með bæinn sinn þarf ekki að vera til marks um að það sé fráfarandi meirihluta að þakka. Maður getur nefnilega verið ánægður Hafnfirðingur, þrátt fyrir allt.

Arnbjörn Ólafsson,
skipar 5. sæti á lista Bæjarlistans í Hafnarfirði og hefur setið í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar síðastliðin fjögur ár.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2