Við leggjum metnað okkar í það hér í Hafnarfriði að mæta öllum börnum þar sem þau eru stödd í námi. Við tryggjum að þau fái þann stuðning sem þau þurfa til að blómstra. Grunnskólinn er hornsteinn í lífi barna og við viljum að hver nemandi finni að hann eigi þar sitt pláss.
Starfsemin í almennum grunnskólum bæjarins felst bæði í almennri kennslu og stuðningskennslu. Stuðningskennslan getur verið tímabundið eða varað allan grunnskólaferilinn. Um 4.000 nemendur eru í grunnskólum í Hafnarfirði, og þótt nemendafjöldinn hafi lítið breyst síðustu 10 árin hefur stuðningur verið stóraukinn. 75 stöðugildi kennara í sérkennslu hafa bæst við á þessum áratug án þess að nemendum hafi fjölgað.
Aðgangur að sérskólum og sérdeildum
Undanfarin ár hefur börnum úr Hafnarfirði sem sótt hafa Klettaskóla og Arnarskóla fækkað. Því höfum við brugðist við með nýjum úrræðum innan Hafnarfjarðar. Sérdeildir og sértækur stuðningur innan grunnskólanna hafa tekið við þeim börnum sem ekki komast í sérskóla.
Við höfum byggt upp fjölbreytt net sérdeilda og sértækra úrræða í grunnskólum Hafnarfjarðar. Með því erum við að tryggja að við getum mætt börnunum okkar á þeim stað sem þau eru. Við viljum að þau fái þá þjónustu sem þau þurfa.
Núna síðast var stofnuð ný deild fyrir nemendur á yngsta stigi í Hraunvallaskóla. Svo önnur deild í Áslandsskóla fyrir ungmenni í skólasóknarvanda. Með þessum aðgerðum erum við að reyna að tryggja að öll börn í Hafnarfirði, sem óskað hefur verið eftir sérúrræðum fyrir, geti fengið viðeigandi stuðning. Hvert barn á að fá að læra og dafna og finna sig í skólanum sínum.
Sameiginlegur sérskóli hér
Nú skoða sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samstarf um uppbyggingu sérskóla með ríkinu. Brýnt er að skoða stöðu barna með auknar þjónustuþarfir, hvort sem er vegna fötlunar, veikinda eða yfirgripsmikilla hegðunarvandamála, og hvernig komið verði til móts við þær þarfir innan skólakerfisins. Ég tel nánast víst að sú greining leiði í ljós þörfina fyrir sérskóla.
Ég mun tala fyrir því að hafist verði handa sem fyrst við að byggja þennan sameiginlega skóla. Einnig mun ég að sjálfsögðu tala fyrir því að sá skóli verði staðsettur í Hafnarfirði. Það væri framfaraskref fyrir hafnfirskar fjölskyldur og börnin okkar öll – þau eiga það skilið.
Valdimar Víðisson
bæjarstjóri