Betri tíð og blóm í haga?

Bæjarfultrúar Samfylkingarinnar skrifa

Adda María Jóhannsdóttir, Gunnar Axel Axelsson og Margrét Gauja Magnúsdóttir

Afkoma Hafnarfjarðarbæjar styrkist nú ár frá ári og því ber að fagna. Ytri aðstæður hafa verið sveitarfélögum hagfelldar og rekstur er víða í plús. Þess ber þó að gæta að betri afkoma Hafn­ar­fjarðarbæjar bygg­ist fyrst og fremst á auknum útsvarsgreiðslum og fasteignaskatti sem bæjarbúar hafa greitt umfram áætl­anir og eru að skila bænum miklum rekstrarafgangi.

Þróunin upp á við frá 2013

Þróunin hefur verið jafnt og þétt upp á við frá árinu 2013 þegar viðsnúningur varð á rekstri bæjarins. Þá fór að sjá til sólar eftir erfiða tíma frá hruni. Endur­fjármögnun og áætlanir þáverandi meirihluta hafa gengið eftir og bættar efnahagsaðstæður hafa síðan hjálpað enn frekar til á síðustu árum.

Íbúar njóti góðs af

En íbúar hafa ekki fundið nægilega fyrir þessum bættu aðstæðum. Á árunum eftir hrun þurfti að ráðast í erfiðar hagræðingaraðgerðir, þó allt væri gert til að standa vörð um grunn­þjónustuna. Það hefur hins vegar geng­ið hægt að skila tilbaka eftir að efnahagsaðstæður fóru að lagast.

Og því hefur núverandi meirihluti því miður ekki staðið nægilega vel að. Í upphafi kjörtímabils var saumað að skólunum með niðurskurði í innkaupum, veikindaafleysingum o.fl. Leikskólum og leikskóladeildum var lokað. Uppbygging hjúkrunarheimilis var stöðvuð og hefur fyrir vikið tafist um tvö og hálft ár. Viðhaldi á byggingum í eigu bæjarins var ekki sinnt sem skyldi og liggja þær nú margar hverjar undir skemmdum. Og þó réttilega hafi verið bætt við íbúðum í félagslega kerfinu á sl. ári hefði þurft að hefja þá vegferð miklu fyrr ásamt því að hefja hér öfluga uppbyggingu í húsnæðismálum almennt.

Það er mikilvægt að fara vel með fé og ekki síður mikilvægt að íbúarnir njóti þegar vel gengur. Við bættar efnahagsaðstæður á að vera forgangsverkefni að bæta samfélagið í þágu heildarhagsmuna íbúanna.

Adda María Jóhannsdóttir,
Gunnar Axel Axelsson, og
Margrét Gauja Magnús­dóttir,
bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here