Áskorun til Hafnarfjarðarbæjar um úrbætur í ferðaþjónustu

Stjórn ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar sendir frá sér yfirlýsingu

Skilti í miðbæ Hafnarfjarðar

Stjórn ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar vann að könnun meðal ferðaþjónustufyrirtækja í Hafnarfirði síðastliðið vor. Þar voru þátttakendur spurðir meðal annars að því hvað væri mikilvægast að vinna að úrbótum að í tengslum við ferðaþjónustu í Hafnarfirði.

Boðið var uppá að velja á milli átta atriða og merkja það frá því að vera minnst mikilvægt og yfir í að vera mest mikilvægt.

Niðurstöðurnar eru nokkuð afgerandi en hér að neðan eru fjögur atriði sem flestir svarenda töldu mikilvægast að vinna að úrbótum á.

  1. Bæta almenna upplýsingagjöf til ferðamanna með fjölgun skilta og betri merkinga.
  2. Bættari þjónustu upplýsingamiðstöðvar ferðamanna.
  3. Bæta aðstöðu við Helgarfell, svo sem almenningssalerni.
  4. Bættu aðgengi fyrir rútur í miðbænum svo sem rútustæði.

Hér að neðan er svo útlistun ferðamálasamtakanna hvernig má vinna að þessum málum:

Bæta almenna upplýsingagjöf með fjölgun skilta og betri merkinga

Í Hafnarfirði er sáralítið um merkingar sem eru hugsaðar fyrir innlenda eða erlenda gesti. Það mætti bæta úr þessu á marga vegu. Alþekkt eru skilti líkt og eru hérna á myndinni til hliðar þar sem vegfarendum er bent í rétta átt. Þar er oft einnig merkt inná hvort að það sé salerni eða veitingar seldar þar. Úr þessu mætti bæta mjög víða í Hafnarfirði. Svona skilti mætti setja upp við Hellisgerði sem vísar gestum niður í átt að byggðarsafninu, miðbænum og í átt að Víðistaðtúni. Á Víðistaðtúni mætti bæta svona skilti sem svo vísar að Hellisgerði, miðbænum, sundhöllinni og tjaldsvæðinu. Við Hafnarfjarðarkirkju mætti vera skilti sem vísar að Hamrinum, Byggðarsafni, Hafnarborg, höfninni og jafnvel Ástjörn.  Svona mætti lengi telja.

Einnig mætti útbúa skilti sem gerir gangandi kleift að fara í sína eigin álfagöngu. Það mætti gera það áberandi á vefnum visithafnarfjordur.is og svo með skiltum. Þar yrði að vera ákveðið upphaf og endir en einnig smá upplýsingaskilti á hverri stoppustöð um álfana sem búa þar. Mætti taka „The Freedom Trail“ í Boston til fyrirmyndar þó svo að þetta yrði að sjálfsögðu minna í sniðum.

Að lokum mætti setja upp „you are here“ skilti á vel völdum stöðum. Fyrsti staðurinn þyrfti að vera við höfnina, sýnilegt fyrir skemmtiferðaskipafarþega, en það skilti væri hugsað til að auðvelda þeim farþegum að ganga á eigin vegum um Hafnarfjörð til að nýta sér þá verslun og þjónustu sem er þar í boði. Einnig mætti vera sambærilegt skilti í námunda við upplýsingamiðstöð ferðamanna.

Bættari þjónustu upplýsingamiðstöðvar ferðamanna

Í dag er upplýsingamiðstöð ferðamanna í Hafnarfirði staðsett í Ráðhúsinu. Þar er opnunartíminn frá kl 8 – 16 virka daga. Enginn opnunartími er um helgar. Á sumrin er svo sett upp viðbótar upplýsingamiðstöð við Byggðarsafnið en opnunartíminn þar er 11 -17 alla daga. Þetta kemur fram á visithafnarfjordur.is.  Þegar leitað er að „tourist Information“ á google maps þá er bent á Ráðhúsið á Strandgötu 6.

Úr þessu þarf að bæta en upplýsingamiðstöð þarf að vera með mun rýmri opnunartíma. Erlendir ferðamenn eyða oft deginum í skoðunarferðir og leita svo gjarnan upplýsinga þegar komið er til baka seinni part. Upplýsingamiðstöðvar eru mjög þekktar hérlendis og erlendis og þrátt fyrir að Reykjavíkurborg sé að hætta rekstri sinnar upplýsingamiðstöðvar þá er það kannski líka vegna þess að í miðborg Reykjavíkur eru margar einkareknar bókunarþjónustu sem sinna þessu hlutverki. Auk þess eru mörg hótel einnig með bókunarþjónustur sem sinna þessu hlutverki einnig.

Bæta aðstöðu við Helgarfell, svo sem með almenningssalerni

Helgarfell er vinsæll staður sem bæði innlendir og erlendir ferðamenn heimsækja auk þess sem íbúar Hafnarfjarðar heimsækja hann mikið. Þar er algjör skortur á almenningssalerni og annarri aðstöðu. Úr þessu þarf að bæta sem fyrst.

Bættu aðgengi fyrir rútur í miðbænum, svo sem rútustæði

Í miðbæ Hafnarfjarðar vantar alveg rútustæði. Þar eru vissulega stoppustöðvar þar sem farþegar geta farið úr og í rúturnar. Það er hins vegar mikilvægt að bæta úr því að hafa rútustæði þannig að rútur geti beðið á meðan farþegarnir skoði miðbæ Hafnarfjarðar, fái sér að borða og versli af þeim fjölmörgu verslunum sem eru þar.

Þetta stæði þyrfti að vera miðsvæðis og gæti hentað vel að hafa það við bílastæðin í Firði.

Eins og fram koma hér að framan þá eru þessi fjögur atriði þau fjögur atriði sem flestir svarenda töldu mikilvægast að bæta úr í tengslum við ferðaþjónustu í Hafnarfirði en mörg önnur atriði voru einnig nefnd.

Stjórn ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar

Geir Gígja
Sif Helgadóttir
Sigríður Margrét Jónsdóttir
Pétur Hafliðason
Þór Sigurðsson

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here