Flensborgarhlaupið í miðbæ Hafnarfjarðar – MYNDIR

Elstu keppendurnir voru hjón, 76 og 78 ára gömul en yngsti keppandinn var 10 ára

Áttunda Flensborgarhlaupið var haldið á þriðjudaginn í glæsilegu veðri. Vegna vega­framkvæmda á Kaldárselsvegi var nú hlaupið frá miðbænum eftir Strandstígnum og í átt að Álftanesi.

Í hlaupinu takast á bæði vel æfðir hlauparar og lítt eða ekkert æfðir hlauparar og voru keppendur á öllum aldri.

Elstur í 10 km hlaupi var 78 ára og sá yngsti 13 ára. Í 5 km hlaupinu var elsti hlauparinn 76 ára og sá yngsti 10 ára. Elstu hlaupararnir voru þau Eysteinn Hafberg (78) sem hljóp 10 km og kona hans Elín Óskarsdóttir Hafberg (76) sem hljóp 5 km og hafði 21 fyrir aftan sig þegar hún kom í mark.

Fjölmargir nemendur úr Verkmenntaskólanum á Akur­eyri tóku þátt í hlaupinu.

Kristján Svanur Eymunds­son var lang fyrstur hlaupara í 10 km hlaupinu, kom í mark á 34:53 mínútum. Fyrst kvenna og 6. í heild var Anna Berglind Pálmadóttir á 40:00 mín. Alls tóku 69 þátt í 10 km hlaupinu.

Hlynur Ólafsson var fyrstur í 5 km hlaupinu á 17:50 mín­útum en stutt var á milli efstu þriggja manna. Fyrst kvenna var Verena Schunurbus á 19:19 mínútum. Alls tóku 138 þátt í 5 km hlaupinu.

Boðið var upp á 3 km hlaup án tímatöku og var þátttaka þar mjög góð. Þar var keppnis­áhuginn mismikill og gleðin í fyrirrúmi.

Úrslit hlaupsins má finna hér.