Norðurlandameistaramót Æskunnar (16 ára og yngri) fór fram í Helsinki í Finnland 1. – 2. júlí og átti sundfélag Hafnarfjarðar tvo fulltrúa á mótinu.
Það voru þeir Hólmar Grétarsson og Magnús Víðir Jónsson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar.
Strákarnir byrjuðu fyrsta hlutann með miklum látum. Hólmar Grétarsson úr SH synti til sigurs í 200 m flugsundi þegar hann synti á 2:05,99 mín og bætti tíma sinn um tæpar 5 sekúndur. Glæsilegt sund hjá Hólmari og Norðurlandameistaratitill fyrir Ísland komið í hús.
Í öðrum hlutanum hélt Hólmar ótrauður áfram og sigraði í 400 m fjórsundi á 4:33.10 mín og bætti þar tíma sinn um tvær sekúndur. Frábær byrjun hjá Hólmari á mótinu.
Magnús Víðir Jónsson SH, tryggði sér bronsverðlaun þegar hann synti 200 m skriðsund á 1:57,62 mín sem er alveg við hans besta tíma.
Á þriðja og síðasta hluta mótsins tryggði Hólmar sér bronsverðlaun í 200 m fjórsundi er hann synti á 2:11,15 mín og bætti sinn besta tíma um 3,5 sekúndur.
Virkilega flottur árangur hjá unga og efnilega sundfólkinu okkar á Norðurlandameistaramót Æskunnar.
Ísland átti átta sundmenn á mótinu; frá SH, Breiðabliki, Ármanni og Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar.
Ljósmyndir: Hákon Ágústsson