fbpx
Fimmtudagur, október 3, 2024
HeimÍþróttir14 ára Hafnfirðingur á leið á heimsmeistaramót í frisbígolfi

14 ára Hafnfirðingur á leið á heimsmeistaramót í frisbígolfi

Hafnfirðingurinn Kristófer Breki Daníelsson úr Frisbígolffélagi Hafnarfjarðar er á leið á heimsmeistaramót ungmenna í frisbígolfi.

Mótið er haldið 16.-20. júlí í Tulsa, Oklahoma í Bandaríkjunum.

Kristófer Breki fer þó til Tulsa þann 8. júlí ásamt föður sínum Daníel Gunnari Sigurðssyni, svo Kristófer fái tækifæri til þess að æfa sig á völlunum og kynnast þeim áður en mótið hefst.

Kristófer Breki kastar á mótinu í gær

Í gærkvöldi var haldið styrktarmót á frisbívellinum á Víðistaðatúni fyrir Kristófer og mættu rúmlega 30 keppendur víðsvegar að til að styrkja Kristófer. Keppnin var þannig að hver keppandi fékk tvær tilraunir til að kasta að körfu og reyna að hitta í einu kasti. Þó margir diskar færu mjög nálægt körfu fóru aðeins tveir diskar beint í körfu, með hálfrar mínútna millibili á brautum sem lágu hlið við hlið.

Keppendur á mótinu í gær komu víðs vegar að.

Í samtali við Fjarðarfréttir sagði Kristófer Breki að hann hafi byrjað að spila frisbígolf þegar hann var tíu ára. Hann æfði handbolta og þegar Covid geysaði hafi hann prófað frisbígolf og heillast af því. Hann hefur keppt víða og síðustu tvö sumar hefur hann m.a. keppt í Bretlandi. Varð hann í fyrsta sæti á fyrra mótinu er hann keppti í aldursflokki 15 ára og yngri en í 2. sæti í fyrra er hann keppti í flokki MA4 sem er blandaður hópur áhugamanna.

Þeir sem lítið þekkja til frisbígolfs undrast oft fjölda diska sem keppendur eru með og aðspurður sagðist Kristófer eiga um 400 diska!

Hann hefur keppt á 42 mótum síðan 2021 og unnið 10 þeirra skv. upplýsingum á vef PDGA, Professional Disc GOlf Association. Þar má sjá að 554 Íslendingar eru á skrá samtakanna, 263 virkir og af þeim eru aðeins 20 konur þar af 3 í Hafnarfirði.

Alls eru 132 keppendur í hans flokki á heimsmeistaramótinu og aðspurður sagðist hann vonast til að verða meðal 50 efstu. Verður spennandi að fylgjast með þessum unga efnilega frisbígolfspilara.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2