Brikk – Nýtt bakarí og matsölustaður

Brikk fær gríðarlega góðar viðtökur við opnun

Daníel Magnússon við ofninn
Daníel Magnússon bakari og Oddur Smári Rafnsson matreiðslumaður

Þeir voru svolítið bráðlátir að opna, félagarnir Davíð Magnússon bakari og Oddur Smári Rafnsson matreiðslu­maður, sem opnuðu nýjan spennandi veit­ingastað að Norðurbakka 1 föstu­daginn 16. júní sl. Húsnæðið er á glæsi­legum stað við höfnina, rúmgott og glæsilegt. Oddur kveðst vera innfæddur Hafnfirðingur en Davíð sé inngiftur eða innfluttur eins og skilgreiningin stund­um hafi verið.

Oddur Smári segir hugmyndina með staðnum að vera bæði bakarí og eldhús. Erum að reyna að sameina krafta okkar Davíðs, „gömul hugmynd sem er búin að blunda í okkur í langan tíma.“ Með þeim félögum í rekstrinum er Einar Bene­diktsson sem býr í London en hafði hvatt þá af stað.

„Þetta er í grunninn bakarí en sérstaða okkar er að við erum að færa baksturinn nær fólkinu, baka allan daginn, steikj­um kleinur t.d. jafnóðum eftir pöntun og allt smurt um leið og óskað er eftir. Ein sérstaða okkar er að við erum með vínveitingarleyfi sem ekki er algengt með bakarí,“ segir Oddur á meðan Davíð hafði í nógu að snúast að kíkja í ofnana og fylgjast með bakstrinum. „Við stefnum á að vera með létta rétti á kvöldin og lokum þá bakaríspartinum og bjóðum t.d. upp á ostabakka og smárétti á platta og fólk geti þá fengið hvítvín eða rauðvín með.“ Þannig breytist stemmningin á kvöldin að sögn Odds. Í boði eru súrdeigsbrauð, fjöl­breytt nýbakað sætabrauð, samlokur og fleira. Til þeirra koma einnig margir til þess eins að kaupa brauð og fleira til að taka með sér.

„Við stefnum á að versla eins mikið í heimabyggð og mögulegt er og hvet ég þá framleiðendur í bænum sem þeir hafa ekki haft samband við að vera í sambandi.“ Þá segir hann markmiðið vera að minnka eins og hægt er notkun á plasti og vinna gegn umbúðasóun.

Hann segir að viðtökurnar hafi verið framar öllum vonum og veðrið hafi leik­ið við þá og að það hafi verið þétt setið fyrir utan. Heiðdís Helgadóttir hann­­aði staðinn og segir Oddur þá fé­laga afskaplega ánægða með árangurinn.

Fréttin birtist í Fjarðarfréttum, bæjarblaði Hafnfirðinga, 22. júní 2017

Mynd af Facebook síðu Brikk

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here