Verkið á nákvæmlega stað og áður á vegg Hafnarborgar – Listráð gagnrýnir afskipti

Listaverkið hefur aftur verið hengt upp á vegg Hafnarborgar - á nákvæmlega sama stað.

Listaverkið sem bæjarstjóri lét taka niður af vegg Hafnarborgar var sett aftur upp sl. sunnudag eftir að afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa hafði samþykkti beiðni þess efnis með ákvæðum um að verkið hylji merki Hafnarborgar með sem minnstum hætti. Verkið hylur þó merki Hafnarborgar á sama hátt og áður.

Verkið á gafli Hafnarborgar áður en bæjarstjóri lét taka það niður.

Listráð Hafnarborgar gagnrýnir afskipti bæjarstjóra

Í yfirlýsingu Listráðs Hafnarborgar segir m.a. að afskipti bæjarstjóra séu afar varhugaverð og munu skaða listrænt frelsi safnsins og listarinnar í heild sinni.

Yfirlýsing Listráðs Hafnarborgar vegna sýningarinnar Töfrafundur – áratugi síðar, sem stendur yfir Hafnarborg:

Hlutverk Hafnarborgar – menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar er að standa fyrir öflugu og metnaðarfullu menningarstarfi sem endurspeglar gerjun samtímans, stuðlar að fjölbreyttu mannlífi og er samnefnari fyrir grósku og vöxt á sviði lista og menningar. Hafnarborg hefur með sýningarhaldi og annarri listrænni starfsemi unnið sér inn það orðspor að vera ein af framsæknustu menningarstofnunum landsins.

Aðdragandi yfirstandandi sýningar, Töfrafundur – áratugur síðar, hefur verið langur og telur listráð Hafnarborgar sýninguna vera mikla skrautfjöður í hatt safnsins. Listamennirnir sem standa að sýningunni, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, voru fulltrúar Íslands á Feneyjartvíæringnum fyrir tíu árum og því þekkt í hinum alþjóðlega listaheimi, auk þess að vera handhafar Myndlistarverðlauna ársins 2021.

Í byrjun maí fyrirskipaði bæjarstjóri Hafnarfjarðar að hluti sýningar Libiu og Ólafs yrði fjarlægður af gafli Hafnarborgar. Listráð Hafnarborgar telur það óforsvaranlegt inngrip í listræna starfsemi safnsins og það setji gott orðspor og heiður safnsins í alvarlegt uppnám.

Listráð Hafnarborgar fordæmir öll afskipti stjórnmálamanna af listrænni starfsemi safnsins, hvort sem það varðar val á listamönnum og listaverkum, uppsetningu verka, útfærslu eða tímabundna staðsetningu þeirra, innan dyra sem og utan. Hús Hafnarborgar heyrir til sýningarsvæðis safnsins, og er afar mikilvægur snertiflötur við almannarýmið. Listaverk og gjörningar á vegum Hafnarborgar hafa enda áður teygt anga sína út fyrir veggi safnsins án þess að forstöðumaður hafi þurft að sækja um formlegt leyfi til bæjaryfirvalda. Afskipti bæjarstjóra eru afar varhugaverð og munu skaða listrænt frelsi safnsins og listarinnar í heild sinni.

Listráð Hafnarfjarðar fer fram á að niðurtaka verksins verði afturkölluð og verkið sett aftur upp á þeim stað sem listamennirnir höfðu ætlað því og hefur alla trú á því að nýráðinn forstöðumaður safnsins muni leiða það til lykta að þessu verði framfylgt.

   Listráð Hafnarborgar

Í listráði Hafnarborgar sitja: Brynhildur Pálsdóttir, Erling T. V. Klingenberg og Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir.

Í ódagsettum viðauka við gjafabréf Hafnarborgar segir um listráð:

Stjórn Hafnarborgar skipar þriggja manna listráð sem hafa skal sama skipunartíma og stjórnin. Hlutverk listráðs er að vera ráðgefandi varðandi listræna starfsemi þar með talið fjalla um innkaup og gjafir samkvæmt söfnunarstefnu. Forstöðumaður geri tillögur að fulltrúum til setu í listráði.

Ummæli

Ummæli