HSK Box Cup er árlegt mót sem haldið er í Hillerød í Danmörku en það hefur verið haldið árlega síðan 1985. Þetta árið voru yfir 350 keppendur frá um 9 löndum. Stór hópur frá Íslandi lagði leið sína á mótið í ár en það fór fram 15.-17. október sl.
Hafþór og Aron unnu báðir gull
Með í för fóru Hafnfirðingarnir Hafþór Magnúson og Aron Haraldson sem eru tveir af fremstu hnefaleikamönnum Hafnarfjarðar þessa stundina. Þeir voru valdir í íslenska landsliðið í sumar og gert að keppa á þessu móti sem var þeirra fyrsta mót erlendis og stóðu þeir sig með prýði og hrepptu báðir gullverðlaun á mótinu. Báðir keppa þeir fyrir Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar.
Aron Haraldsson byrjaði fyrst að keppa í íþróttinni árið 2016, þá einungis 10 ára gamall og hefur hann nú lengi verið fremstur meðal jafningja í krakka- og unglingaboxi á Íslandi og er með um 30 viðureignir að baki. Hann hefur nýlega snúið sér að ólympískum hnefaleikum og tók þátt í sínum fyrstu 5 bardögum á þessu ári. Aron keppti í flokki U-17, 66-70 kg flokki.
Hafþór Magnúson hóf að stunda hnefaleika 14 ára í byrjun árs 2019 og var ekki lengi að marka sín spor og sýna að hann eigi heima meðal okkar sterkustu hnefaleikakappa. Hann er ásamt Aroni að stíga sín fyrstu skref í ólympískum hnefaleikum eftir að hafa sýnt fram á mikla hæfni í keppnum í krakka- og unglingaflokki þar sem hann hefur keppt í 12 viðureignum. Hafþór keppti í U-17, 60-63 kg flokki.