Tillögur fjölmiðlanefndar hjálpa staðbundnum prentmiðlum nær ekkert

Lilja Al­freðsdótt­ir mennta­ og menningarmálaráðherra og Björgvin Guðmundsson formaður fjölmiðlanefndar.

Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur lokið störfum og afhenti skýrslu sína í dag. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um stöðu fjölmiðla bæði hér á landi og erlendis og útskýrt að rekstrarerfiðleika megi helst rekja til breyttra forsendna til tekjuöflunar.

Nefndin gerir tillögur um aðgerðir í sjö liðum sem nefndin segir að gætu bætt rekstrarskilyrði fjölmiðla:

 1. Endurgreiðsla á hluta kostnaðar vegna framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni
 2. Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði
 3. Virðisaukaskattur á sölu og áskriftum á rafrænu formi og af hljóð- og myndefni eftir pöntun verði 11%
 4. Áfengis og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar
 5. Endurgreiðsla á hluta kostnaðar vegna textunar og talsetningar
 6. Undanþáguheimildir frá textun og talsetningu
 7. Gagnsæi í kaupum hins opinbera á auglýsingum

Ekkert af þessu hjálpar staðbundnum prentmiðlum sem dreifa blöðum sínum frítt en óvíst er þó hvernig fyrsti liðurinn gæti gagnast staðbundnum fréttamiðlun. Er tillagan frekar óljós og ræðst algjörlega af útfærslu hvort hún komi þessum miðlum að einhverju gagni.

Póstburðargjöld eru gríðarlega stór liður í rekstri blaða eins og Fjarðarfrétta auk þess sem gæði póstþjónustunnar versnar.

Ekki er brugðist við neinum tillögum þessara miðla m.a. um beina eða óbeina styrki, hvorki til reksturs né dreifingar.

Aukin sala á auglýsingum með heimild til að birta áfengis- og tóbaksauglýsingar gætu komið þessum miðlum vel en er kannski ekki áhugaverður kostur.

Virðist sem nefndin hafi nær eingöngu hugað að velferð stærstu einkarekinna fjölmiðlanna og þá sérstaklega ljósvakamiðla.

Í nefndinni sátu:

 • Björgvin Guðmundsson, formaður, meðeigandi KOM ráðgjafar, skipaður án tilnefningar
 • Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, skipuð án tilnefningar
 • Hlynur Ingason, starfsmaður í fjármála- og efnahagsráðuneyti, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra
 • Soffía Haraldsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri mbl.is, skipuð án tilnefningar
 • Svanbjörn Thoroddsen, meðeigandi KPMG, skipaður án tilnefningar

Skoða má skýrsluna í heild hér.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here