Fimmtudagur, nóvember 20, 2025
HeimFréttirTillaga að forgangsröðun á gerð hjólreiðastíga kynnt

Tillaga að forgangsröðun á gerð hjólreiðastíga kynnt

Samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins var undirritaður í lok september 2019. Sáttmálinn felur í sér sameiginlega stefnu í uppbyggingu samgönguinnviða til fimmtán ára með fjárfestingu upp á 120 milljarða króna, þar af fari 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Vegagerðin fara með það hlutverk að skipuleggja og framkvæma uppbygginguna í samræmi við sáttmálann.

Í byrjun árs 2020 ákvað hjólahópur SSH og Vegagerðarinnar að hefja vinnu við að kortleggja stofnleiðir fyrir hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu til undirbúnings uppbyggingarinnar og var óskað eftir aðstoð EFLU við þá vinnu.

Markmið þessa verkefnis er að

  • ákveða hvaða innviðir (stígar og aðrar lausnir) verða byggðir á næstu 15 árum með fjármagni úr sáttmálanum.
  • raða völdum framkvæmdum í forgang sem ræðst af mikilvægi leiðanna.
  • áætla hönnunar- og framkvæmdakostnað fyrir hverja leið eða legg.

Niðurstöður verkefnisins eru fyrstu skrefin í átt að framkvæmdum á stofnleiðum og verða endurskoðaðar reglulega og eftir þörfum.

Framkvæmd og samráð

Vinnuhópur SSH um hjólreiðar samanstendur af fulltrúum frá hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu ásamt fulltrúum SSH og Vegagerðarinnar. Vinnuhópurinn hefur verið starfandi um nokkurra ára skeið og gaf meðal annars út hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar í lok árs 2019.

Forgangsröðun uppbyggingar stofnleiða hjólreiðastíga 2020 – 2033.

Forgangsröðun einstakra uppbyggingarverkefna sem sýnd er á myndinni hér að ofan var ákveðin í samráði sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar. Sæktu kortið stærra á PDF hér.

Ákvörðunin byggir á eftirfarandi þáttum:

  • Framtíðarsýn sveitarfélaganna á uppbyggingu hjólaleiða og -stíga innan sveitarfélagsins.
  • Uppbyggingu á samgönguleiðum, þ.e. stofnleiðum sem flytja fólk til og frá vinnu eða skóla.
  • Umferðartalningum á fjölda hjólandi frá 2019, bæði úr föstu hjólateljurunum og frá talningum sem fóru fram með færanlegum teljurum í september sama ár.
  • Uppbyggingu Borgarlínu.
  • Heildarmynd hjólaleiðanetsins þar sem markmikið er að tengja saman þá hjólastíga sem nú þegar eru aðskildir frá gangandi umferð.

Forgangsröðunin var kynnt í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar í morgun.

Leiðirnar sem eru næst á dagskrá

Rauðu leiðirnar eru þær stofnleiðir sem stefnt er að því að leggja 2020-2024 en eftirfarandi í Hafnarfirði:

  • Tenging frá Strandgötu, við Hamarinn og inn á Velli með tengingu við nýju göngubrúna yfir Reykjanesbraut vestast á Hvaleyrarholti.
  • Hjólreiðastígur meðfram Reykjavíkurvegi frá Engidal að Miðvangi.
  • Tenging frá stíg við Álftanesveg meðfram Fjarðarhrauni og inn á Reykjanesbraut í átt að Garðabæ.
  • Tenging frá Fjarðarhrauni við undirgöngin við Kaplakrika um Álfaskeið, Sólvangsveg, Lækjargötu, Lækjarkinn, gömlu Reykdalsbrekkuna/Reykjanesbraut og yfir gömlu göngubrúna yfir Reykjanesbraut og Ásbrautina að Ástjörn.

Engar leiðir eru á dagskrá í Hafnarfirði 2025-2029 en frá 2030-2033 er gert ráð fyrir hjólastíg niður Reykjavíkurveg, samhliða Borgarlínunni, um Fjarðargötu og Strandgötu og einnig upp Lækjargötu.

Það er síðan framtíðardraumur um tengileiðir eins og meðfram Krýsuvíkurvegi, í gegnum gamla Setbergið, frá Skarðshlíð og yfir á Kaldárselsveg og meðfram Flóttamannveginum.

Stofnleið hjólreiða frá Hrafnistu að gamla Álftanesveginum, þar sem enginn göngu- eða hjólastígur er í dag, er hins vegar líka framtíðardraumur.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2